143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:51]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, það er gríðarlega margt jákvætt í þessari þingsályktunartillögu. Mig langaði hins vegar til þess að koma aðeins inn á það sem hv. þingmaður hóf ræðu sína á, þ.e. landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið og þá togstreitu sem oft er þar á milli. Þetta er alveg hárrétt og er til mikilla vandræða og kemur í rauninni niður á bæði höfuðborgarsvæðinu og landshlutunum sem slíkum á ýmsan hátt.

Ég velti fyrir mér: Hvernig sæi hv. þingmaður það fyrir sér að við getum unnið að því að fá fólk til þess að hugsa jákvætt um landið allt sem eitt svæði? Þetta skiptir okkur öll máli. Ég hef gjarnan sagt að þegar smáar byggðir um landið, sem berjast fyrir lífi sínu, láta undan síga og deyja út þá sé bara komið að næstu byggð. Það er eins með höfuðborgarsvæðið, ef landsbyggðin veikist meir og meir þá grefur það líka undan höfuðborgarsvæðinu. Það skiptir verulegu máli að við horfum á landið sem eina heild. Við getum ekki haldið landinu í byggð ef eingöngu er byggð á einhverju tilteknu landsvæði.