143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[13:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er ágætistækifæri til að sóa nokkrum sekúndum í að kvarta undan stuttum ræðutíma.

Hv. 9. þm. Reykv. n., Birgir Ármannsson, nefndi hér að stefna beggja stjórnarflokkanna væri sú að halda ekki áfram viðræðum nema að undangengnum þjóðaratkvæðagreiðslum. Sömuleiðis hefur hæstv. forsætisráðherra sagt hér áður að stefnuyfirlýsingin sé í góðu samræmi við stefnu stjórnarflokka. Þá á eftir að útskýra hvers vegna samt sem áður er ekki hægt að segja: Já, það verður þjóðaratkvæðagreiðsla eftir úttektina.

Gott og vel, það þarf að gera úttekt á stöðu mála, gott og vel, fínt. Fáum þá úttekt og síðan skulum við halda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það sem gengur ekki er að síðan sé ekki einu sinni haldin þjóðaratkvæðagreiðsla heldur fari málið eingöngu fyrir Alþingi þegar hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað talað þannig fyrir kosningar eins og það sé bara sjálfsagt mál að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu og því er ég sammála.

Mig langar að vitna í gamlan bloggpistil frá hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Sú íhaldssemi að stjórnmálamenn taki einir ákvarðanir var sem betur fer brotin þegar þjóðin hafnaði Icesave-samningum í trássi við vilja þeirra flokka sem nú vilja ná stöðugleika með aðild að efnahagslegum rústum ESB. Við fetum nú í átt til frjálslyndari stjórnarhátta og ESB-umsóknin er tilvalið prófmál.“

Tilvalið prófmál. Hvaðan kemur þessi ótti við þjóðaratkvæðagreiðslu? Er það þannig, hæstv. forsætisráðherra og virðulegur forseti, að þjóðin hafi alltaf rangt fyrir sér? Er það reynslan á Íslandi af þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er hann ósammála þjóðinni þegar kom að Icesave eða öðrum þjóðaratkvæðagreiðslum sem hafa átt sér stað hér? Ég held ekki.

Þegar við á þingi spyrjum og þegar þjóðin spyr hvort það verði þjóðaratkvæðagreiðsla — burt séð frá tímasetningu — ætti hæstv. forsætisráðherra að segja: Já, það þarf úttekt og við þurfum að taka upplýsta afstöðu til málsins, þess vegna þarf úttekt, en svarið er: Já. (Forseti hringir.) Það ætti að vera svarið.