143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar vegna þingmáls sem á sér langan aðdraganda eins og hv. þingmenn þekkja. Það var unnið að gerð fríverslunarsamnings á síðasta kjörtímabili og undir lok þess var gengið frá samningnum og hann undirritaður samhliða því sem gefin var út sameiginleg yfirlýsing forsætisráðherra landanna.

Það sem gerst hefur síðan er, eins og kemur fram í nefndaráliti og viðauka, að gengið hefur verið frá viljayfirlýsingu um samvinnu á sviði vinnumála. Því verki var lokið í haust og sá samningstexti liggur fyrir þótt ekki sé búið að staðfesta hann formlega.

Í nefndarálitinu er fjallað um bakgrunn málsins og aðdraganda, eins og hv. þingmenn geta kynnt sér. Fjallað er um vinnuna sem átt hefur sér stað í undirbúningi málsins, samráð við hagsmunaaðila og utanríkismálanefnd þingsins meðan á samningagerð stóð og þar kemur líka fram að um er að ræða fríverslunarsamning sem byggður er upp á svipaðan eða sambærilegan hátt og þeir fríverslunarsamningar sem Ísland á þegar aðild að og hefur að mestu leyti gert í samvinnu við önnur aðildarríki EFTA, þó ekki eingöngu.

Í nefndarálitinu er fjallað um þá hagsmuni sem Íslendingar geta haft af samningnum, hagsmunir sem eru líka gagnkvæmir. Eins og gengið er út frá við gerð fríverslunarsamninga er gert ráð fyrir að báðir samningsaðilar hafi af þeim ávinning. Þarna er tiltekið að viðskipti við Kína, bæði viðskipti Íslendinga og viðskipti annarra vestrænna ríkja við Kína, fara mjög vaxandi. Kínverska hagkerfið er að stækka þannig að hagsmunir af viðskiptum við þetta fjölmenna land eru miklir.

Fríverslunarsamningurinn gerir ráð fyrir því eða gengur út frá því að þau viðskipti sem nú eiga sér stað og kunna að verða á komandi árum verði frjáls, ekki verði um að ræða tollamúra og ekki verði um að ræða viðskiptahindranir af ýmsum toga. En þrátt fyrir að viðskiptin séu töluverð í dag eru enn þá ýmis atriði sem valda óhagræði í þessum viðskiptum, þar á meðal að í mörgum tilvikum bera vörur sem fluttar eru til Íslands frá Kína tolla og í sumum tilvikum, reyndar í allmörgum tilvikum, verður í framkvæmd ákveðin tvítollun sem stafar af því að vörur eru fyrst fluttar til annarra Evrópulanda og tollaðar inn í Evrópusambandið og síðan tollaðar aftur þegar þær koma til Íslands. Með þeirri breytingu sem felst í fríverslunarsamningnum er a.m.k. sú tvítollun úr sögunni hvað varðar kínverskar vörur.

Í dag er það svo að innflutningur frá Kína er meiri en útflutningur okkar þangað, en vonir standa til þess að samningurinn verði til að greiða fyrir útflutningi íslenskra afurða til Kína. Frá sjónarmiði efnahags- og atvinnulífs eru kostirnir sem fylgja samningnum ótvírætt afar miklir.

Það er tekið fram í nefndarálitinu að fríverslunarsamningurinn feli ekki í sér neinar breytingar hvað varðar möguleika Kínverja til fjárfestinga á Íslandi. Þar er í gildi ákveðinn samningur um vernd fjárfestinga frá 1994 sem þó felur ekki í sér neinar sjálfstæðar heimildir til fjárfestingar heldur aðeins vernd þeirra fjárfestinga sem hafa átt sér stað. Þessi samningur sem slíkur breytir engu um regluumhverfi að því leyti, það eru önnur lög sem varða fjárfestingu erlendra aðila sem gilda. Þessi samningur breytir engu um það.

Áhyggjur sem hafa komið fram í opinberri umræðu um miklar fjárfestingar Kínverja hér á landi eiga því ekki við rök að styðjast, a.m.k. ekki hvað þennan samning varðar, þannig að það sé sagt.

Sama á við um innflutning vinnuafls. Það er ekki verið að opna fyrir innflutning vinnuafls með samningnum. Að því leyti er hann takmarkaðri en ýmsir aðrir samningar, m.a. sá fríverslunarsamningur sem er í gildi milli Nýja-Sjálands og Kína en Nýja-Sjáland var fyrsta vestræna ríkið, getum við sagt, sem gerði fríverslunarsamning af því tagi við Kína. Í nefndarálitinu er sérstaklega tekið fram að íslenski samningurinn gangi lengra í varúðarátt en nýsjálenski samningurinn að þessu leyti.

Í yfirferð nefndarinnar var töluvert fjallað um stöðu mannréttindamála í Kína og hvaða áhrif sú staða hefði varðandi gerð samninga af þessu tagi. Þar er auðvitað um að ræða mikilvægar spurningar sem nefndin fór svo sannarlega yfir og fékk fjöldamargar ábendingar um frá samtökum og einstaklingum sem lýstu miklum áhyggjum af stöðu mannréttindamála í Kína. Það má segja að sú umræða hafi verið tvíþætt. Annars vegar sneri hún almennt að stöðu mannréttindamála, mannréttindabrotum sem framin hafa verið af kínverskum stjórnvöldum, bæði í Tíbet og annars staðar, og hins vegar komu fram athugasemdir sem lutu sérstaklega að stöðu og réttindum á vinnumarkaði í Kína en gagnrýni hefur komið fram á að þar sé víða pottur brotinn.

Það má segja að komið sé til móts við áhyggjur manna af hinum síðari þætti, þ.e. vinnumarkaðsmálunum, með þeirri viljayfirlýsingu um samvinnu á sviði vinnumála sem fylgir með sem fylgiskjal í nefndarálitinu og unnin var undir forustu félagsmálaráðuneytisins og gert er ráð fyrir að verði staðfest formlega í vor. Auðvitað er hægt að segja að þetta séu aðeins orð á blaði og ekki trygging fyrir einu eða neinu. Það er vissulega rétt. Á hinn bóginn má segja að viljayfirlýsingin leiði þó til þess að búinn sé til sérstakur farvegur og búinn sé til sérstakur vettvangur til að ræða þær áhyggjur sem menn kunna að hafa af stöðu þessara mála í Kína. Ég fæ því ekki séð að við séum í verri stöðu til að hafa áhrif í framfaraátt að því leyti með gerð samningsins en við höfum í dag.

Ég held að sú breyting sem felst í því að gengið er frá fríverslunarsamningnum og fylgiskjölum með þessu geri það þó að verkum að við höfum fleiri tækifæri til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri við kínversk stjórnvöld, sérstaklega hvað varðar vinnumarkaðsmálin en raunar líka hvað varðar stöðu mannréttindamála almennt, og vísa ég þar meðal annars til sameiginlegra yfirlýsinga forsætisráðherra ríkjanna frá síðasta vori þar sem gert er ráð fyrir að unnt sé að taka upp mál af þessu tagi á sameiginlegum vettvangi og ræða þau.

Nefndin, eða flestir nefndarmenn getum við sagt, allir þeir nefndarmenn sem undirrita nefndarálitið komast að þeirri niðurstöðu að almennt sé heilladrýgra til að hafa áhrif til jákvæðrar áttar á sviði mannréttindamála að eiga samskipti við ríki en að loka á slík samskipti, að snerting sem verður, hvort sem það er á sviði viðskipta, menningarmála, íþróttamála eða á hvaða vettvangi sem er, snerting og samskipti milli ríkjanna séu líklegri til þess að hafa áhrif til góðs heldur en að loka á slík samskipti. Þetta er auðvitað ekki óumdeilt sjónarmið og kom fram hjá ýmsum gestum nefndarinnar að þeir gagnrýndu það viðhorf og töldu að það fælist einhvers konar viðurkenning á stöðu mannréttindamála í Kína að gera samning af þessu tagi. Svo er auðvitað ekki.

Staðreyndin er hins vegar sú að Íslendingar hafa í 40 ár átt formlegt stjórnmálasamband við Alþýðulýðveldið Kína. Viðskiptin eru fyrir hendi. Viðskiptin eru að aukast. Það sem gerist með því að samningurinn er samþykktur er í raun og veru ekkert annað en að greitt er fyrir þeim viðskiptum, þau eru gerð auðveldari. Þau eru gerð hagkvæmari, vonandi báðum aðilum til gagns og ávinnings. Það held ég að sé kjarni málsins.

Telji menn að óeðlilegt sé að gera viðskiptasamninga við Kínverja vegna stöðu mannréttindamála má spyrja hvað mönnum finnst um að hafa stjórnmálasamband ef það er vandamálið, svo við skoðum þetta með opnum hætti. Ég held að ég hafi gert grein fyrir því sem er kjarninn í nefndaráliti utanríkisnefndar um málið.

Við undirritum þetta, fulltrúar allra flokka. Áheyrnarfulltrúi Pírata, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, lýsti sig andvíga afgreiðslu málsins og kemur það fram í nefndaráliti með bókun sem hún birti þar. Tveir hv. nefndarmenn gera fyrirvara og vísa til vinnumálasamstarfsins og munu væntanlega gera grein fyrir því í umræðum hér á eftir. Það er hins vegar óhætt að segja að í meginatriðum var allvíðtæk og góð pólitísk samstaða um afgreiðslu málsins. Menn veltu mikið fyrir sér spurningum í því sambandi. Þetta mál fékk ítarlega umfjöllun í nefndinni. Ég hygg að við höfum gengið frá því með þeim hætti sem bestur er og tryggastur miðað við þá hagsmuni sem hér eru undir.