143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:06]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Ég og þingflokkur Bjartrar framtíðar greiðum atkvæði með þessum samningi. Við gerum það í nafni opinna viðskipta og mikilvægi þess að Ísland sem er inn- og útflutningsþjóð eigi náin og góð samskipti og viðskipti við allar þjóðir. Við erum miklir andstæðingar þess að setja öll egg í sömu körfu. Við lítum ekki svo á að við séum að flytja íslensk viðskipti úr einni körfu í aðra heldur séum við að dreifa þeim. Á sama tíma leggjum við mikla áherslu á mannréttindamálin og vinnumálin. Þess vegna undirritaði ég sem fulltrúi Bjartrar framtíðar í utanríkismálanefnd nefndarálitið með fyrirvara um að samkomulagið um vinnumál yrði staðfest. Við leggjum áherslu á það.