143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

hjúkrunarheimilið Sólvangur.

[15:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í sjálfu sér er engin lausn komin í það mál sem kom upp á Sólvangi. Það er rétt, sem hann nefnir hér, að ég óskaði eftir úttekt landlæknisembættisins á stöðu mála á Sólvangi. Sú úttekt er ekki enn komin inn á mitt borð. Starfsmenn ráðuneytisins hafa verið að funda með stjórnendum Sólvangs. Þetta mál kom nokkuð bratt upp því að það lá fyrir að í apríl á síðasta ári var aukið í fjárveitingar til heimilisins á árinu 2013 og var fullt samkomulag milli velferðarráðuneytisins og stjórnenda Sólvangs og bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um þær aðgerðir sem gripið var til í upphafi árs og allt fram í apríl á síðasta ári. Þess vegna kom mjög á óvart sú mynd sem dregin var upp af stjórnendum í þeirri umræðu sem var hér efst á baugi fyrir nokkrum vikum.

Lausnin á vandræðum eða viðfangsefnum þessa heimilis er í grunninn ekkert önnur en gildir um öll önnur sambærileg öldrunarheimili. Ég hef óskað eftir því við Ríkisendurskoðun að hafin verði heildarúttekt á stöðu öldrunarheimila í landinu, að greina fjárhagslega stöðu þeirra, ábyrgð eigenda, mismunandi rekstrarform og í framhaldi af þeirri úttekt, sem ég vænti að muni skila sér einhvern tímann á vori komanda, sé hægt að móta heildstæða stefnu um það hvernig við ætlum að taka á þeim rekstrarvanda sem víða er við að glíma í þessari starfsemi.

Ég tek undir orð hv. þingmanns um vinnuframlag og frábæra frammistöðu starfsfólks á þessum stofnunum öllum. Það verður seint fullþakkað.