143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[16:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn tek ég undir þessa tillögu. Þetta er þörf brýning um að efla samstarf millum þessara þriggja grannþjóða á mikilvægum sviðum. Brýningin er þörf eins og ég sagði, en það er ekki þannig að við höfum algjörlega legið á liði okkar í þeim efnum. Það er sennilega þrjú ár síðan skrifað var undir samning við Færeyjar um samstarf á sviði heilbrigðismála. Við gerðum þar samning um að annast tilteknar aðgerðir á Færeyingum hér á landi að því er varðar augu og liði. Ég minnist þess að við buðum þeim einnig þann möguleika að koma hingað varðandi hjarta- og æðasjúkdóma. Hvað varðar Grænland hefur verið reglulegt samráð á milli íslenskra stjórnvalda og grænlenskra um heilbrigðismál og að minnsta kosti til skamms tíma sáum við um ákveðna hluti sem tengdust sjúkraflugi á austurströndina, enda auðveldast að sinna því héðan frá Íslandi. Vísast er það alveg rétt að góð vísa er aldrei of oft kveðin. Það væri hugsanlega hægt að gera betur þarna.

Þetta mun ekki kosta okkur neitt af því að í þessu samstarfi hefur jafnan verið gert ráð fyrir því að þeir sem njóti þjónustu greiði fyrir hana. Í tilviki Færeyinga var það þannig að í staðinn fyrir að fara til Kaupmannahafnar í tilteknar aðgerðir þótti okkar góðu frændþjóð auðveldara að koma til Íslands. Það var líkara Færeyjum og kostaði þá ekkert meira. Þeirra kerfi greiddi fyrir það í sama mæli og ef þeir sóttu til Danmerkur.

Það er alveg hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni að samstarf okkar og þessara þjóða getur einungis legið upp á við. Það liggur fyrir að við horfum til Færeyinga sem fyrirmyndar í ákveðnum atvinnugreinum eins og þjónustu við olíuiðnað þar sem þeir hafa náð geysilega merkum árangri án þess að hafa nokkru sinni dregið dropa af olíu upp úr hafsbotninum.

Ég er þeirrar skoðunar, og hef margoft sagt það úr þessum ræðustól, að við getum leitað til þeirra um hvernig þeir hafa byggt upp sinn öfluga þjónustuiðnað við olíusvæði sem núna sinnir viðfangsefnum langt utan hins upphaflega olíuleitarsvæðis sem heyrir undir Færeyinga. Í Færeyjum er sá iðnaður orðinn næststærsta atvinnugreinin á eftir sjávarútvegi. Hann skilar milljörðum inn í færeyskt efnahagslíf. Hér á Íslandi, hvað sem mönnum finnst um olíuna, og hvort sem hún finnst eða ekki, er alveg ljóst að það verða mikil umsvif a.m.k. á tveimur ef ekki þremur svæðum á því flæmi sem ég hef stundum skilgreint sem íslenska orkuþríhyrninginn. Það liggur í augum uppi að það verða umsvif á Norðaustur-Grænlandi á næstu árum og eru þegar að hefjast, bæði vinnsla á landi á ýmiss konar mikilvægum jarðefnum og úti á hafi. Það er einfaldlega þannig að ómögulegt er að sinna þjónustu við það nema héðan frá Íslandi. Þannig er bara landafræðin.

Þess vegna tel ég að gott sé að leggja kjöl að því samstarfi í dag. Það er skýr vilji til þess, bæði af hálfu íslenskra og grænlenskra stjórnvalda. Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að nú sé mikilvægt að hugsa til framtíðar varðandi öryggi á hafinu. Umferð mun stóraukast. Það er líklegt að innan áratugar muni aukast skipaumferð um það sem við höfum kallað miðleiðina yfir Norðurpólinn og vöruflutningar milli Íslands og Asíu muni hefjast að einhverju marki. Hversu mikið er erfitt að spá um í dag. Af því leiðir að ljóst er að við þurfum að hafa hér ákveðinn öryggisviðbúnað. Hann getur líka nýst þeim atvinnusvæðum sem á eftir að þróa við Norðaustur-Grænland og einnig utan Íslands innan efnahagslögsögunnar. Allt fellur þetta saman eins og púsl í mynd. Það skiptir máli að við byrjum snemma að leggja grunninn að þessu samstarfi. Ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn standi sig í því.

Að því er varðar það mál sem hér er undir, heilbrigðismálin, tel ég að þar séu líka ónýttir möguleikar. Kannski þarf á hvatningu eins og þessari að halda til þess að brýna hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða í þeim efnum. Hann gæti verið full önnum kafinn við ýmislegt annað til þess að geta gefið málinu gaum, en ég treysti þá formanni Vestnorræna ráðsins til þess að keyra það áfram.