143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[16:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fundir eru auðvitað góðir. Stundum finnst mér að það sé fullmikið af fundum í okkar vestnorrænu samvinnu án þess að þeir beinlínis leiði alltaf til sjáanlegrar niðurstöðu. En ég treysti hv. þingmanni mjög vel til að sjá til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra verði ekki deigari en einn af forverum hans, Álfheiður Ingadóttir, sem gegndi þeirri stöðu og skrifaði undir og undirbjó þennan fína samning við Færeyjar. Ég man bara ekki hvernig staða samninga við Grænlendinga er en ég tel að það sé einhvers konar samningur um heilbrigðissamstarf í gildi þar á milli. En það er alveg ljóst að það er vilji af Íslendinga hálfu til að efla það samstarf. Og gleymum því ekki að Flugfélag Íslands flýgur til fleiri staða á Grænlandi en á Íslandi og er annað af tveimur flugfélögum sem sannarlega heldur uppi eins öflugum flugsamgöngum í því góða landi og kannski hægt er að gera ráð fyrir miðað við dreifbýli og landafræði og stöðu þess lands, þannig að ekki stendur á okkur Íslendingum.

Stundum grunar mig að innan Grænlands séu þó öfl sem sé ekkert um það gefið að þeir sem byggt hafa það land frá öndverðu beini sjónum sínum í ríkari mæli til Íslands. Gæti ég þá aðeins farið yfir það í lengra máli en tel nú ekki rétt að tefja þingstörf með því.