143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var mjög sáttur við þetta svar hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, er sammála honum um það að þetta er spennandi verkefni. Sömuleiðis fannst mér hann líka segja að við ættum að sjálfsögðu að reyna að ljúka þeim verkefnum sem eru kannski komin af teikniborði og bíða framkvæmda. Við megum aldrei gleyma því að til þess að ekki verði verkefnaþurrð í framtíðinni og til þess að við höldum áfram að skapa verðmæti og nýta möguleika þarf líka að setja í pípurnar og hafa tilbúið, vinna sig inn í framtíðina. Allt tekur þetta mjög langan tíma.

Ég er sem sagt sáttur við þetta. Nú vek ég eftirtekt hv. þingmanns á því að hvað sem mönnum finnst um rammaáætlun um vernd og nýtingu, þá liggur hún fyrir. Og það liggur fyrir a.m.k. sátt um tiltekin verkefni sem á næstu árum eða áratugum væri hægt að ráðast í. En það er líka annað. Við búum í landi mikilla jökla og horfum fram á hlýnun andrúmsloftsins. Menn hafa sýnt fram á það að á næstu áratugum mun orkuframleiðslugeta þeirra vatnsaflsvirkjana sem nú þegar eru til staðar aukast allnokkuð. Í mörgum þeirra væri hægt að framleiða meira með því að bæta við. Sums staðar er það hægt, sums staðar ekki. Ég er sem sagt að draga fram þá staðreynd að það er líklegt að völ verði á meiri orku í framtíðinni en áður.

Svo má hv. þingmaður ekki fremur en ég gleyma því að núna eru til staðar í kerfinu fast að 300 megavött sem þurfa að vera til reiðu ef til einhvers konar áfalla kemur eða lónastaða er óhagkvæm. Þetta losnar með streng af þessu tagi. Þarna eru verðmæti sem í dag eru öryggistrygging en við getum komið í beinhörð verðmæti með því að setja upp streng af þessu tagi. (Forseti hringir.) Þetta var eitt af því sem ég gagnrýndi að væri ekki að finna í nefndarálitinu sem hv. þingmaður á þátt í.