143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Takk fyrir þetta. Ég held að hv. þingmanni sé að verða að ósk sinni vegna þess að ég les þetta þannig að héðan í frá eigi hæstv. ráðherra að hefja strax áframhaldandi vinnu. Þótt það séu engar tímasetningar í þessu eru ekki lagðir til neinir biðleikir, bara að menn vinni þetta áfram á skynsamlegum nótum og á skynsamlegum hraða. Það hljóta að vera skilaboðin hér.

Ég held líka að það sé ekki gott fyrir samfélag að láta svona stórmál hanga yfir okkur lengur en þarf, þótt ég viti að ákvörðun um svona verður aldrei tekin fyrr en eftir einhver ár. Við erum ekkert að tala um einhverja mánuði. Það eru enn þá ár í það. Við gætum kannski klárað þetta á innan við hálfum áratug, fimm árum eða eitthvað slíkt og menn gætu kannski tekið ákvörðun hér eftir tvö ár, eitthvað slíkt. Engu að síður túlka ég þetta þannig að þarna séu engir biðleikir í boði í raun og veru heldur eigi að halda áfram á sama tempói, vinna málið skynsamlega og koma svo með það aftur fyrir þingið þegar það er tilbúið.

Ég hlakka til að sjá þá niðurstöðu vegna þess að þetta er stórt mál. Þetta yrði gríðarleg breyting fyrir okkur. Það eru varasamir þættir í því, en það eru líka gríðarlega spennandi þættir. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr áframhaldandi vinnu í þessu máli. Ég sat í umhverfis- og samgöngunefnd sem fjallaði um málið. Við horfðum auðvitað aðallega á það sem að okkur snýr sem eru umhverfisþættirnir og fengum umsagnir. Þar voru margar réttmætar ábendingar um að skoða þyrfti betur umhverfisþátt mála. Það vantaði ákveðnar upplýsingar þar. Ég hef tröllatrú á því að það verði gert. Við höfum reynslu af því. Við erum með sæstrengi á sviði fjarskipta þannig að það þarf ekki (Forseti hringir.) að vera of mikil viðbótarvinna fólgin í því þó það verði skoðað.