143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég kem aðallega hér í þessa umræðu vegna þess að ég hef fylgst með henni og mér leiddust orð sem uppi voru höfð um það, t.d. af hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, hálfgerðar ásakanir í garð þeirra sem ekki kusu að vera flutningsmenn að frumvarpinu með þeim meiri hluta fjárlaganefndarmanna sem það gerir. Mér finnst þau ummæli ekki makleg auk þess sem ég hef svolitlar áhyggjur af því að mikil oftrú sé í gangi hér á því að breytingar af þessu tagi einar og sér mundu leysa allan vanda okkar í sambandi við aga í ríkisfjármálum og að aldrei þyrftu til að koma fjáraukalög eða annað því um líkt ef þetta yrði gert. Því miður held ég að það sé ekki svo. (GÞÞ: Hver sagði það?) Það lá nú svona dálítið í umræðunni og farið er mjög fögrum orðum um það í greinargerð frumvarpsins hve mikið áynnist og yrði nú ekkert smáræði ef það gengi allt eftir; allar þarfir fyrir eftiráheimildir í lokafjárlögum mundu hverfa o.s.frv. Það stendur á einni blaðsíðu greinargerðar frumvarpsins, hv. flutningsmaður og framsögumaður.

Frú forseti. Ég ætlaði bara að tjá mín viðhorf til þessa máls og þau eru á þann veg að ég er sammála því markmiði — og það hefur lengi verið rætt og menn hafa lengi verið sér þess meðvitaðir að við höfum misst dálítið böndin af þessari víðtæku mörkun tekna. Það tel ég að eigi sérstaklega við þegar um er að ræða tiltölulega smáa fjárlagaliði sem úir og grúir af hér eins og frumvarpið ber með sér og geta vissulega skapað vandræði, t.d. eins og það ef tekjur einhverra aðila sem eru með markaðar tekjur vaxa skyndilega og viðkomandi gæti þar af leiðandi þanið mjög út sína starfsemi. Fjárstjórnarvaldið er kannski ekki alveg sátt við það en af því að um markaðar tekjur er að ræða hafa menn bögglast með það þannig að munurinn milli fjárheimilda og tekna hefur verið færður á einhvers konar innstæðureikning viðkomandi stofnunar og menn líta þá svo á að þeir eigi þá peninga og gera kröfu til þeirra.

Algerlega hin hliðin á þessu máli skaut mjög upp kollinum í kjölfar kreppunnar. Það sköpuðust vandamál gagnvart því að tryggja að starfsemi ríkisins af þessum toga tæki á sig aðhald eins og aðrir því að menn vildu meina að þeir þyrftu þess ekki af því að þeir byggðu á mörkuðum tekjum og ættu jafnvel ónotaðar fjárheimildir o.s.frv. Þannig að ég geri ekki lítið úr því að þetta skapar ákveðin vandamál. En ekki er þar með sagt að það sé einfalt mál að fara í þetta með einu áhlaupi og stúta þessu í einu lagi auk þess sem hér er um mjög eðlisólíka hluti að ræða ef betur er að gáð, mjög eðlisólíka; allt frá aragrúa af smáliðum af þessu tagi yfir í mjög stór grundvallarpólitísk mál sem menn þurfa að þekkja bæði bakgrunn á og sögu, held ég, ef þeir ætla að átta sig á því hvað er undir, ef menn ætla að breyta því fyrirkomulagi. Þar vil ég auðvitað nefna, og hefur sumt af því nú þegar verið nefnt hér, að á liðinni tíð náðist kannski við einhverjar aðstæður um það pólitísk samstaða og/eða samstaða við hagsmunaaðila, aðila vinnumarkaðarins, að til þess að koma ákveðnum framfaramálum áfram yrðu menn að tryggja sér tekjur og menn féllust á tiltekna tekjuöflun gagngert í því skyni að standa fyrir viðkomandi verkefnum og úrbótum. Þetta gildir um Framkvæmdasjóð aldraðra. Eða halda menn að mikil samstaða hefði orðið um að leggja á nefskatt af því tagi ef það hefði ekki verið til að fjármagna mikilvægar aðgerðir í þágu aldraðra?

Svipað má segja um útvarpsgjaldið að það er að breyttu breytanda, eftir því sem samstaða er um, nú er ég ekki að halda því fram að það sé svo, að einhvers konar gjaldtaka sé til staðar til að reka almenningsútvarp í landinu. Það er nefskattur. Ég held að menn hljóti að átta sig á því að það getur orkað mjög tvímælis að vilji og stuðningur sé við það að viðhalda slíkri skattheimtu ef hún er ekki lengur merkt viðkomandi viðfangsefnum.

Enn stærra er atvinnuleysistryggingagjaldið eða atvinnuleysistryggingaþáttur tryggingagjaldsins sem byggir á samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um að atvinnulífið taki sjálft á sig beint kostnaðinn við að greiða atvinnuleysisbætur. Þeim er það nú nokkuð fast í hendi geri ég ráð fyrir, aðilum vinnumarkaðarins. Þeir hafa stutt það fyrirkomulag og þeir hafa gert meira en það, þeir hafa tekið á sig mikla hækkun atvinnutryggingagjaldsins á tímum erfiðleika og aukins atvinnuleysis eins og í kreppunni sem við höfum verið að fara í gegnum, auðvitað gegn vilyrði um að þegar svo drægi úr atvinnuleysinu þá fengju þeir þetta til baka. Þá mundi atvinnuleysistryggingaþáttur tryggingagjaldsins lækka í samræmi við lækkandi atvinnuleysis. Það er hins vegar ekki verið að standa við það en það er önnur saga.

Sama gildir um Ábyrgðasjóð launa og sama gildir um þann þátt tryggingagjaldsins sem samstaða tókst um á sínum tíma að hækka í þágu fæðingarorlofs á Íslandi. Þá var tryggingagjaldið hækkað sérstaklega til að fjármagna átak í að koma á betra fæðingarorlofskerfi á Íslandi — og veitti nú ekki af og erum við þó enn langt á eftir því sem við vildum vera í þeim efnum, eða hvað, með níu mánaða fæðingarorlof í staðinn fyrir ár eða meira í flestum nágrannalöndum. Þetta er allt þarna hvað sem menn nú segja og þarf að takast á við.

Stærsta mörkun tekna hefur í gegnum tíðina verið sá hluti skatttekna af umferð sem runnið hefur til uppbyggingar samgöngukerfisins. Ég held að það sé sömuleiðis býsna viðkvæmt að hverfa algerlega frá því að greiðendurnir, umferðin, hafi einhverjar tryggingar fyrir því að að minnsta kosti talsverður hluti þeirrar skattlagningar renni þá í þágu hennar aftur í þágu betri samgöngukerfis, betri vega o.s.frv.

Ég tel líka að það sé viss misskilningur að stilla þessu máli þannig upp að þetta snúist um að fjárveitingavaldið sé fært í burtu frá Alþingi þó að um mörkun tekna sé að ræða. Það er auðvitað Alþingi sjálft, það er löggjafinn og fjárstjórnarvaldið sjálft, sem hefur ákveðið slíkt í lögum og ákveðið að það skuli vera þannig.

Frumvarpið eins og það er úr garði gert, að mér virðist, gerir nánast í öllum tilvikum ráð fyrir því, eða á mjög mörgum stöðum kemur það fram í textanum, að viðkomandi skattur verði lagður á áfram með hliðsjón af útgjöldum stofnunar eða viðfangsefnis en renni í ríkissjóð í stað þess að vera markaður. Þá verður sú breyting á, sem vissulega er ein möguleg leið í þessum efnum, að um svokallaðar ríkistekjur verður að ræða en ekki markaðar tekjur og þannig er það til dæmis með útvarpsgjaldið í dag eða eins og það var. Það var þannig frá því gengið að það eru ekki markaðar tekjur, það eru ríkistekjur. Á þessu er sá munur að ef mismunur er milli þeirra fjárheimilda sem Alþingi samþykkir og teknanna af gjaldinu þá þarf ekki að standa í þessum æfingum að setja það á einhvern geymslureikning merktan viðkomandi málaflokki því að það er þá ríkið sem fær þær tekjur, fær kúfinn, fær afganginn. Á þetta var bent og talsvert tekist á um þetta á síðasta kjörtímabili þegar hluti útvarpsgjaldsins var tekinn í ríkissjóð og reyndar fleiri gjöld af öðrum toga.

Alþingi hefur alltaf bæði fjárstjórnarvaldið og löggjafarvaldið í sínum höndum á hverju einasta ári og mörkunin er nú ekki heilagri en það að ef farið væri yfir þetta í gegnum tíðina þá væri býsna algengt að svokölluð „þrátt fyrir“-ákvæði væru sett í lög sem aftengdu þetta að einhverjum hluta ef aðstæður voru þannig. Það er held ég ekki alveg rétt nálgun að segja að þarna sé Alþingi með beinum hætti að endurheimta eitthvað sem það hafi misst frá sér í sjálfu sér þó að þessi mörkun hafi átt sér stað víða í löggjöf.

Ég held líka að það sé eiginlega óumflýjanlegt, það er vissulega mikið beðið, að fara þá yfir það í tengslum við aðgerð af þessu tagi hvort við ætlum í öllum tilvikum að byggja á áframhaldandi og sams konar tekjuöflun. Ég hefði þá viljað sjá að menn færu yfir það ef gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, nefskatturinn sem þar er, verður ekki áfram beint merkt þeim málaflokki; á þá að leggja það á? Þetta er nefskattur og þeir þykja almennt ekki sanngjarnir eða góðir og ég gæti þá alveg eins hugsað mér að hann yrði einfaldlega látinn hverfa og almennt tekjuöflunarkerfi ríkisins verði tryggt með viðhlítandi ráðstöfunum svo að almennt tekjuöflunarkerfi ríkisins skilaði því sem til þyrfti. Það gæti átt við fleiri nefskatta eða gjöld af þessu tagi. Kannski ætti þá bara að taka til í því líka, einfalda tekjuöflunarkerfi ríkisins umtalsvert, byggja á færri en breiðari tekjustofnum og sleppa innheimtu á ýmsum gjöldum af þessu tagi. Það er auðvitað risavaxið verkefni og mjög viðamikið að fara í slíka heildstæða endurskoðun en mér finnst að það þurfi að minnsta kosti að fara yfir það. Áður en menn ákveða að slá af alla afmörkun tekna er spurningin: erum við samt að tala um í aðalatriðum óbreytt innheimtukerfi í kjölfarið? Auðvitað geta menn sagt að það megi þá fara yfir það í kjölfarið, í framhaldinu o.s.frv. en það er álitamál hvað á að koma á undan.

Eins spyr ég nefndarmenn í fjárlaganefnd að því hvað líði samhenginu við ný og væntanleg lög um opinber fjármál eða frumvarp sem væntanlega er á leiðinni og — herra forseti, það er betra ef menn þurfa að kalla fram í að þá komi þeir inn í salinn svo að maður heyri hvað þeir eru að segja eins og hv. formaður fjárlaganefndar. (Gripið fram í.) Ég hefði mjög gjarnan viljað sjá það frumvarp líka og hvernig verður þar um þetta gengið. Er meiningin að taka eitthvað á þessu þar, í grundvallarlögunum sjálfum, og skoða þetta þá allt í víðtæku samhengi? Ég tel það fullkomlega eðlilegt, og það má enginn skilja það svo að ég sé ekki sáttur við að fjárlaganefnd haldi áfram að vinna þetta mál. Það hefur verið skoðað í mörg ár og þetta hefur iðulega borið upp en það hefur jafn oft og alltaf komið upp að þetta er býsna vandasöm aðgerð. Á síðasta kjörtímabili, svo langt sem þetta komst, var þetta borið eitthvað inn í þingflokka. Þá kom í ljós, eins og við mátti búast, að það voru býsna skiptar skoðanir og blendin sjónarmið í mörgum þingflokkum, var þá upplýst. Aðallega held ég varðandi það hvað væri raunhæft eða raunsætt að ganga langt í þessum efnum og kannski að það væri ekki líklegt til árangurs að hafa allt undir, nánast allt eins og hér er gert. Ef ég veit rétt þá er eiginlega engu sleppt nema þá kannski útvarpsgjaldinu. Nú leiðrétta menn mig ef þess þarf af því að ég hef ekki haft tíma til að grandskoða þetta en mér virtist svo vera.

Það eru sjónarmið eins og þau hvort gjaldið sem lagt er á til að fjármagna opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eigi að breytast í ríkistekjur eins og hér er lagt til en ekki vera merkt beint eftirlitinu með fjármálastarfseminni. Þar þarf að skoða evrópskar skuldbindingar því að eitt af því sem er tilskilið í þeim efnum er að eftirlitsaðilarnir borgi eftirlitskostnaðinn og það eigi að vera hrein gjaldtaka á þá og mæta raunkostnaði og auðvitað er það tryggt með mörkun teknanna. Ef oftekið er eitt ár er hægt að veita afslátt af eftirlitsgjaldinu næsta ár o.s.frv., engar grunsemdir um að ríkið sé að ásælast eitt eða neitt en þær geta vaknað ef um ríkistekjur er að ræða í staðinn fyrir markaðar tekjur o.s.frv. Þannig að það er auðvitað að býsna mörgu að hyggja í þessum efnum.

Ég mæli svo bara að lokum þau varnaðarorð, eða sem mér finnast vera skynsemisorð, að það sé ágætt að halda þessari vinnu áfram. Ég gef mér að hv. nefnd taki svo málið aftur til sín og það verði sent til umsagnar o.s.frv. í framhaldi af 1. umr. en það sé líka skynsamlegt að flýta sér hægt og meta af raunsæi hvaða áfanga væri kannski hægt að taka í þessu í sæmilegri sátt. Þá segi ég fyrir mitt leyti að ég er alveg tilbúinn til að fara í gegnum þetta og skoða það að fækka til mikilla muna mörkuðum tekjustofnum og mörkuðum liðum en áskil mér rétt til að hafa fyrirvara um þá stærstu og þá pólitískustu og þá sem að mörgu leyti kann að orka mest tvímælis að taka út.