143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

staða tónlistarskóla.

[13:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að inna hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu tónlistarskóla, ekki síst í Reykjavík, í kjölfar þess að samkomulag var gert á milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga vorið 2011 til eflingar tónlistarnámi í landinu. Það var yfirskriftin. Markmiðið var að ríkið mundi styðja við nám á framhaldsstigi í tónlist með tilteknu framlagi sem nam 480 millj. kr. Af því var ríflega helmingur, 250 millj. kr., nýir fjármunir en síðan færðust verkefni á móti frá ríki til sveitarfélaga sem voru metin á 230 millj. kr.

Þrátt fyrir þetta samkomulag sem var til eflingar tónlistarnámi bera sveitarfélögin lögum samkvæmt ábyrgð á rekstri tónlistarskóla. Samkomulagið miðast hins vegar við krónutölu sem var reiknuð út frá tilteknum fjölda kennara. Það liggur líka fyrir að það hefur orðið veruleg fjölgun nemenda á framhaldsstigi í tónlist frá árinu 2011.

Í samkomulaginu eru endurskoðunarákvæði en það sem við höfum séð við framkvæmd þess er að einhver sveitarfélög, til að mynda Reykjavík, hafa kosið að gera samninga við skóla á sínu svæði eingöngu um kennslu á grunn- og miðstigi en ekki framhaldsstigi. Það má því segja að ábyrgðinni á stiginu hafi verið varpað yfir á ríkið þó að lögum hafi ekki verið breytt og fjármunir ekki aukist frá því að samkomulag var gert.

Hvað sem okkur finnst um það er alveg ljóst að afleiðing þessa er mikil óvissa fyrir tónlistarskólana sem sinna tónlistarnámi á framhaldsstigi. Staða margra þeirra í Reykjavík samkvæmt mínum upplýsingum er orðin afar slæm og það veldur auðvitað vanda að hvorki ríki né borg telji sig bera ábyrgð á kennslu á framhaldsstigi í tónlist.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hann hyggst taka á málinu, hvort hann ætli að beita sér fyrir því að samkomulagið verði endurskoðað eða hvort það verði á einhvern hátt skerpt á þessari verkaskiptingu í lagafrumvarpi sem lýtur að tónlistarmenntun og er á endurskoðaðri og upprunalegri þingmálaskrá, þannig að staðan skýrist og allir aðilar gangi til borðs með sameiginlegan skilning á því hver beri þessa ábyrgð.