143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skýrsla aðila atvinnulífsins um ESB.

[13:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekkert fréttnæmt í ræðu hv. þingmanns nema að búið sé að sameina ASÍ og Samtök atvinnulífsins. Mér finnst það stórfrétt. Hv. þingmaður talaði eins og það séu ein og sömu samtökin sem þarna eru á ferðinni. Það er áhugavert fyrir aðila verkalýðshreyfingarinnar ef það er þannig að búið sé að sameina ASÍ og Samtök atvinnulífsins.

Hv. þingmaður spyr um orð mín í hádegisfréttum í dag. Það hefur aldrei staðið annað til en að leggja skýrsluna sem við erum að gera hér fyrir þingið. Ég get ekkert gert að því þótt aðilar úti í bæ, hvort sem þeir heita Samtök atvinnulífsins eða ASÍ, séu að skrifa aðrar skýrslur eða gera eitthvað slíkt. Það er ekki mitt mál. Það er ekki mitt að ákveða hvað verður gert með það. Þeir hljóta að birta sína skýrslu þegar hún er tilbúin. Ég veit ekki hvenær það verður.

Ég ætla ekki að bíða eftir þeirri skýrslu til að taka þá til umræðu sem hér er. Af hverju ættum við að gera það?

Skýrsla Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins eða þeirra sem standa þessu að baki — og ég segi það líka eins og ég sagði í hádegisfréttum í dag og man ekki betur en að uppleggið hafi verið þegar þeir báðu um þá skýrslu að þetta væri fyrir félög sem eru hlynnt aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Við ákváðum að fara til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem fyrri ríkisstjórn hafði notað, að ég best veit, til að vinna fyrir sig gögn. Til hvers var það? Var það ekki til þess að gefa þessu meira og aukið vægi? Er hv. þingmaður kannski að vega að sjálfstæði Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands? Er það það sem má lesa út úr orðum hv. þm. Helga Hjörvars, að hann treysti ekki þeirri stofnun til að skila óhlutdrægri skýrslu?