143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skipulagsbreytingar í framhaldsskólakerfinu.

[14:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að það sé mjög mikilvægt að varðveita ákveðinn sveigjanleika í framhaldsskólakerfinu okkar. Því er það þannig, eins og ég sagði áðan, að þó að við horfum til þess að stytta námið í þrjú ár verður áfram sveigjanleiki fyrir þá sem á því þurfa að halda að geta verið lengur.

En við þurfum að horfa á það að bekkjarskólunum okkar er langflestum þannig stillt upp að miðað er við fjögurra ára nám. Gangi þær breytingar eftir sem ég hef verið að boða breytist það í að þeir verði miðaðir við þriggja ára nám.

Við sjáum reyndar þessa þróun vera komna töluvert af stað, t.d. hjá Kvennaskólanum. Nú síðast var tekin ákvörðun um það hjá Verslunarskóla Íslands að sá skóli mundi breyta sér úr því að vera fjögurra ára skóli yfir í þriggja. Ég tel öll rök fyrir þessum breytingum. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að það skipti máli að fá sem best og gott samráð um málið, nýta auðvitað alla þá miklu þekkingu sem kennararnir búa yfir en þá þarf að liggja fyrir alveg skýr stefnumörkun af hálfu ríkisins í málinu hvert við viljum fara og síðan verði unnið á þeim grundvelli.