143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[15:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Almennt ríkir lítill skilningur í samfélaginu á andlegum kvillum. Það eru ekki bara fordómar heldur afleiðing þess að við teljum okkur hafa stjórn á eigin hugsunum, eigin löngunum og eigin gjörðum. Við hugsum svona vegna þess að við þurfum að hugsa svona. En það er ekki alltaf rétt, virðulegi forseti. Heilinn er líffæri sem getur bilað eins og önnur líffæri, hann getur bilað á ýmsan hátt, þar á meðal þann að við missum að hluta til einn mikilvægasta þátt þess að vera frjáls, nefnilega sjálfsstjórnina, hæfileikann til að taka eigin ákvarðanir.

Virðulegi forseti. Fíkn er hvorki spurning um viðhorf né hlýðni heldur spurning um heilbrigði. Þótt það liggi vel við að einfaldlega banna neyslu fíkniefna verður að benda á tvennt. Í fyrsta lagi gefur það vísbendingu um að samfélagið sé haldið sömu ranghugmynd og fíkillinn sjálfur, nefnilega þeirri að hann geti hætt hvenær sem hann vilji, því að sannleikurinn er sá að fíkillinn getur ekki hætt þó að hann vilji það nema í um það bil 5% tilfella. Í næstum því öllum tilfellum sem hann sjálfur vill og reynir mun honum mistakast. Þannig virkar fíkn. Það þarf meira en bara viljastyrk, það þar hjálp. Ekki refsingu heldur hjálp.

Í öðru lagi er dópstríðið nú orðið um fertugt, hefur kostað gríðarlega fjármuni og samfélagslegar fórnir sem litlu hafa skilað til að ná upprunalega markmiðinu, sem var að vinna gegn neyslu fíkniefna og skapa heilbrigt samfélag. Dópstríðið hefur einfaldlega ekki borið árangur. Enginn mótmælir þeirri fullyrðingu lengur. Við hljótum að þurfa að endurskoða stefnuna einlæglega og heiðarlega í kjölfarið. Byrjum á byrjuninni: Hvers vegna var þessi vegferð hafin? Nú, til þess að draga úr og helst útrýma neikvæðum afleiðingum fíkniefnaneyslu. Augljóst er að það þýðir lítið að hóta fólki með refsingum fyrir hegðun sem á sér stað í einkalífinu, þetta höfum við vonandi lært af reynslunni.

En það eru til leiðir sem virka, virðulegi forseti. Fyrst ber að nefna öflugt forvarnastarf, en það er ekki síður mikilvægt að hjálpa þeim á fætur sem fara sér að voða samt sem áður. Það er hins vegar hvorki sanngjarnt, mannúðlegt né rökrétt að fylgja þeim aðferðum eftir með refsingum. Þvert á móti þvælast refsingarnar fyrir og það er kannski helst það sem mig langar til þess að færa rök fyrir að þurfi að breyta. Við þurfum að hætta að refsa fólki fyrir fíkniefnaneyslu.

Refsistefnan hefur skapað trúnaðarbrest milli fórnarlamba fíkniefna og samfélagsins. Á sama tíma upplifir fíkillinn yfirvöld sem refsara og upplifunin er slík vegna þess að hún er sönn, við búum við refsistefnu í málaflokknum og hún býr til fleiri vandamál en hún leysir. Hún gerir það að verkum að þeir sem ánetjast fíkniefnum lifa fyrir utan ramma laganna og líta á yfirvöld fyrst og fremst sem óvin. Því er mannréttindavernd þessa hóps í mörgum tilvikum afar bágborin svo að ekki sé meira sagt enda leitar fólk sér mun síður og seinna hjálpar eða stuðnings yfirvalda.

Nýlega stóð ég í þessari pontu og ræddi tiltekið mál þar sem fórnarlamb undirheimanna var dæmt í árs fangelsi þrátt fyrir að öllum hefði átt að vera ljóst að hún væri fórnarlamb. Fíkniefnaneytendur eru ekkert hissa á þessu, virðulegi forseti, þetta eru skilaboðin sem við höfum sent.

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að draga úr misnotkun á fíkniefnum og skaðanum sem þau valda. Í því sambandi er öflugt forvarnastarf einn mikilvægasti þátturinn en einnig öflug úrræði innan heilbrigðiskerfisins. En til þess að þær aðferðir beri raunverulegan árangur til langframa þurfum við að hætta að vinna gegn fólki sem neytir fíkniefna og byrja að vinna með því, rétt eins og við þurfum að vinna með þunglyndissjúklingum ef árangur á að nást. Við þurfum að bjóða fólk velkomið og gera því skýrt að öryggisnetið sem yfirvöldum ber að halda úti sé ekki bara fyrir alla heldur sérstaklega fyrir þá sem þurfa mest á því að halda. En við getum ekki boðið hjálp með einni hendi og á sama tíma hótað höggi með hinni. Fíkniefnaneysla er ekki löggæsluvandamál heldur heilbrigðisvandamál og það ber að leysa sem slíkt.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir, og ég vil varpa fram í dag, er þessi: Hvernig getum við aukið traust fíkniefnaneytenda til yfirvalda í því skyni að auka mannréttindavernd þeirra og stuðla að árangri í baráttunni við fíkniefnin?