143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[16:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra þessa opnu umræðu um fíkniefnamálin, en hún er kannski ekki opin að ástæðulausu. Stefna okkar í fíkniefnamálum skilar einfaldlega ekki árangri. Notkunin vex og fórnarlömbunum fjölgar með tilheyrandi dauðsföllum, heilbrigðistjóni og félagslegum vandamálum og stefnu sem skilar jafn slæmum árangri er nauðsynlegt að endurskoða.

Ég vil leggja áherslu á að við þá endurskoðun leitumst við við að læra af reynslu annarra. Það búa margir yfir mikilli reynslu og árangri á því sviði meðal þeirra þjóða sem við erum vön að bera okkur saman við og af þeim eigum við að læra fremur en að ráðast í tilraunastarfsemi í þessum viðkvæma málaflokki.

Ég vil að lokum taka undir með hv. þm. Róberti Marshall að við verðum líka að horfast í augu við að ekki er nóg að lýsa góðum vilja til að skila betri árangri í þeim málefnum. Til að ná betri árangri þurfum við líka að fjárfesta í fólki, í úrræðum og í starfi að þeim málefnum, vegna þess að án fjármuna eru orð okkar í þessum umræðum léttvæg.