143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Séu það mistök í augum hv. þingmanns hefur hún tækifæri til að bæta fyrir þau núna með því að standa við orð formanns Sjálfstæðisflokksins og leyfa þjóðinni að velja um framhald viðræðna. Það einkennir málflutning hv. þingmanns að hún gengur framar Evrópusambandinu í reglufrekju fyrir þess hönd.

Ég ætla síðan að benda hv. þingmanni á eitt sem hún gleymdi að geta. Á bls. 40 í þeim viðauka sem Ágúst Þór Árnason dósent skrifar kemur fram, og það eru nýjar upplýsingar, að eftir samtöl og rannsóknir hans í Brussel kemst hann að þeirri niðurstöðu að landbúnaður sé ekki óleysanlegt vandamál. Enginn þekkir betur kröfufrekju Íslendinga varðandi sjávarútveg en stækkunarstjórinn. Hann sagði fyrir skömmu að stuttur vegur væri í það að hans mati að Evrópusambandið gæti lagt fram tillögu sem væri ásættanleg fyrir Íslendinga. Þetta er mat annars vegar skýrsluhöfundar og hins vegar stækkunarstjórans.

Þetta eru þeir tveir kaflar sem mestu skipta. Niðurstaðan er því sú að sennilega er mun auðveldara að ná samningi en jafnvel þessi karl hér taldi. Það er niðurstaða skýrslunnar.