143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er svona auðvelt að ná samningi hvers vegna var hann ekki kláraður? (ÖS: Makríll.) Er hann að segja að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki gengið nægilega hart fram í málinu? Það er auðvelt undanskot hjá hv. þingmanni að halda því fram að það hafi verið makríllinn sem eyðilagði þennan leiðangur fyrir ríkisstjórninni. Það er einfaldlega ekki rétt og það er margt annað sem kom þar til og þá sérstaklega þau atriði sem ég taldi upp: Það að farið var af stað án þess að menn væru nægjanlega undirbúnir, það að farið var af stað án þess að til þess væri nægilegur styrkur hér heima, það að farið var af stað með klofna ríkisstjórn hvað varðar spurninguna hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið.

Væri ég stuðningsmaður þess að ganga í Evrópusambandið væri ég nú afskaplega svekkt út í þann flokk sem hefur leitt umræðuna á Íslandi um að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið, þ.e. Samfylkinguna, fyrir að hafa klúðrað þessu rækilega, sérstaklega í ljósi þess að fyrrverandi ráðherrann segir hér að það hafi verið mjög einfalt að semja um sjávarútvegsmál og landbúnað. Hvers vegna var það þá ekki klárað?