143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Aðeins að þessu síðasta sem …

(Forseti (ValG): Forseti vill biðja hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að muna eftir ávarpsorðum.)

Virðulegi forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður nefndi — það er nú ekki að furða að ég sé orðin ryðguð, ég er bara búin að vera hérna í bráðum 11 ár. Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður nefndi þá höfum við alltaf verið meðvituð um þetta. Við höfum ekkert verið að fela það að við vitum af því að færum við þessa leið væri þetta eitt af því sem við gætum þurft að sitja undir, þ.e. að heildaraflinn yrði ákvarðaður í framkvæmdastjórninni. En í framkvæmdastjórninni situr vonandi fulltrúi Íslands og sömuleiðis er það einfaldlega þannig að aldrei er gengið gegn grundvallarhagsmunum þjóðarinnar, hvað þá ráðgjöf og leiðbeiningum frá þeirri þjóð sem um er að ræða. Ákvörðunin yrði því eingöngu formleg þar ef þetta yrði niðurstaðan. En þarna erum við aftur farin að ræða ef, mögulega, kannski.

Ég mundi vilja sjá að íslenska efnahagslögsagan yrði sérstök stjórnsýslueining og það er ekkert hægt að segja að það hafi allt í einu komið upp 2009. Ég fór yfir það hér áðan að það kom fyrst fram árið 1999 hjá John Madison — ég þarf að segja það aftur, menn eru ekkert að hlusta — sem þá var sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og var svo útfært betur í ræðu Halldórs Ásgrímssonar í Berlín árið 2002, undir það tekið af Joschka Fischer. Það gekk út á að gera íslensku efnahagslögsöguna að sérstakri stjórnsýslueiningu. Það er líka fjallað um það, held ég, í skýrslunni frá 2007 sem Björn Bjarnason fór fyrir, þá var fjallað um þetta líka, þannig að það er ekkert nýtt undir sólinni í þessu.

Virðulegi forseti. Ég verð að tala um Noreg í síðara andsvari mínu. En það er grundvallarmunur á stöðu Noregs og Íslands. Við erum ekkert ósammála um hlutina miðað við það sem hv. þingmaður las upp en (Forseti hringir.) ég ætla að fá að klára þetta í seinna andsvari.