143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:34]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar spurningar og skal reyna að klóra mig fram úr að svara þeim. Ég byrja kannski á atriðunum er varða aðgerðaáætlun um breytingar á stofnanakerfinu.

Ég var að reyna að draga fram í ræðu minni áðan að ég er ósáttur við þá leið sem við völdum að fara, að biðja um að skila einungis inn undanþágu. Af hverju fórum við ekki einfaldlega í það breytingaferli og gerðum þetta fyrir opnum tjöldum þannig að við sæjum þá og þjóðin mundi þá upplifa hvað væri að taka við? Ég held að sú aðferð að hafa samið um að fá að gera þetta á grundvelli aðgerðaáætlunar hafi að mörgu leyti skaðað stöðu okkar. Það sem ég er að reyna að segja aftur varðandi samningsafstöðuna sem tilbúin var í landbúnaði og þær úttektir sem þar lágu að baki, ég var að vísa í úttektir sem Hagfræðistofnunin gerði fyrir íslensk stjórnvöld, ekki fyrir Bændasamtök Íslands. Hún er að mörgu leyti gölluð, hún er gölluð að því leyti að menn leyfa sér að horfa mjög þröngt á hagsmuni einstakra eða á stöðu einstakra búgreina þannig að þegar hrunið verður í svínakjötinu og hrunið verður í alifuglakjötinu gerir skýrslan ekki ráð fyrir ruðningsáhrifunum fyrir aðrar búgreinar, því að öll landbúnaðarfjölskyldan, allar búgreinarnar, styðjast hver við aðra.

Aðeins um þetta stofnanaumhverfi sem þurfti að breyta og þurfti að byggja upp. Það þurfti til dæmis að byggja upp stofnun greiðsluþjónustu landbúnaðarins sem samkvæmt öllum teikningum átti þá að verða 30–40 manna stofnun.