143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

stjórnartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að ég hef fylgst með nokkrum forsetum þingsins og ég held að það sé mjög hæpið að gagnrýna þann sem hér er. Hér hefur virðulegur forseti samviskusamlega, og ég hef ekki séð það gert áður með þeim hætti, svarað fyrirspurnum hv. þingmanna jafnóðum og komið með rökstuðning fyrir ákvörðunum sínum og það finnst mér vera til fyrirmyndar.

Mér finnst, ef menn í fullri alvöru vilja bæta vinnubrögð, bæta virðingu þingsins og annað slíkt, að þá ættu menn að tala um hlutina eins og þeir eru og ekki er hægt að gagnrýna vinnubrögð forseta þingsins. Ef við viljum ræða, sem ég vil ræða, efnislega um skýrsluna, hvað það þýði að Ísland gerist aðili að ESB, þá skulum við fara í þá umræðu. Þá held ég að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það af hverju í ósköpunum farið var í þá vegferð að sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að alvara væri á bak við. Það hefur aldrei gerst í neinu landi í Evrópu að þannig hafi málið verið. Það er ein af ástæðunum fyrir því hvað þetta mál er í miklum vandræðagangi að hér var sótt um aðild að Evrópusambandinu og menn sögðu í fullri alvöru að þeir mundu samt sem áður ekki endilega fara í það.