143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum aftur að fara að ræða skýrsluna sem hefur í raun verið gerð ómarktæk með tillögunni sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram um slit á viðræðum. Vegna þess að hæstv. forseti sagði áðan í umræðum um fundarstjórn að skýrslan yrði send hv. utanríkismálanefnd til umfjöllunar vil ég engu að síður spyrja hvort þá sé ekki alveg öruggt að tillagan um slit á viðræðum komi ekki til umfjöllunar í þingsal fyrr en utanríkismálanefnd hefur fjallað um skýrsluna sjálfa.

Þá spyr ég líka í öðru lagi hvort ekki sé alveg öruggt að eftir umfjöllun þingnefndar komi skýrslan til umfjöllunar í þingsal og það verði ekki fyrr en eftir það sem umræða um viðræðuslit verði tekin á dagskrá.

Ég tel að við þurfum að fá skýr svör við þessu áður en áfram er haldið.