143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

þingleg meðferð mála frá utanríkisráðherra.

[17:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er fyrst í ræðu um þetta mál á eftir og að sjálfsögðu velti ég fyrir mér tilgangi þeirrar ræðu. Ég viðra vissulega skoðanir mínar þar en ég hélt alltaf að það væri hluti af innleggi í stærra samhengi, þ.e. varðandi úrvinnslu þessarar skýrslu og þess sem á eftir kemur. En hér kom fram hjá forseta áðan að málið færi í nefnd, síðan yrði nefndarálit og málið færi svo inn í þingið aftur.

Mig langar að leita álits hjá hæstv. utanríkisráðherra, af því að hann er í salnum, hvort hann hafi sama skilning á meðferð þessarar skýrslu og hæstv. forseti lýsti hér áðan og hvort hann taki undir þau sjónarmið. Það skiptir auðvitað töluvert miklu máli ef málið fær þó þá þinglegu meðferð. Eins vil ég spyrja hvort hann sé ásáttur um (Forseti hringir.) að tillagan sem hér var dregin til baka í dag komi ekki til umfjöllunar fyrr en að þeirri vinnu lokinni.