143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún lýsti ágætlega þeirri skoðun sinni að hún væri ekki hlynnt aðild að Evrópusambandinu en væri hlynnt því að þetta ferli gengi eftir og þjóðin fengi að segja skoðun sína á því hvað hún vildi gera.

Hv. þingmaður nefndi byggðamál í ræðu sinni og nú hefur Evrópusambandið smátt og smátt lagt æ meiri áherslu á byggðamál og skuldbundið sig til að hlúa að svæðum sem einhverra hluta vegna hafa orðið félagslega og efnahagslega undir og vinna þar að stöðugleika og betri búsetuskilyrðum með styrkjum til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs o.fl.

Ísland 20/20 eða sóknaráætlun landshluta er verkefni sem var unnið hér á síðasta kjörtímabili. Öll sveitarfélög tóku þátt í því og sveitarstjórnarmenn úti um allt land hafa lagt í margra klukkustunda vinnu sem gengur einmitt út á að styrkja svæðin, horfa á svæði sem heild og forgangsraða verkefnum og að landshlutasamtökin kæmu þannig með virkari hætti að fjárlagagerðinni. Þeir fengju ákveðið fjármagn inn á landsvæði og þeir sjálfir, eftir að hafa metið stöðuna, forgangsraða þá fjárveitingum til ákveðinna verkefna.

Nú hefur ný ríkisstjórn snúið við blaðinu og hefur aðeins veitt 25% af þeim fjármunum sem veitt var til verkefnisins árið 2013 og í stað þess að leggja áherslu á sóknaráætlun svæða, svipað og byggðastefna Evrópusambandsins gerir ráð fyrir, hefur hæstv. forsætisráðherra úthlutað, að því er virðist að eigin geðþótta, 205 milljónum út til sveitarfélaganna án þess að þau hafi í sumum tilfellum alla vega beðið um það. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um þessa stefnubreytingu.