143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í dag hafa verið fluttar málefnalegar og góðar ræður um þá skýrslu sem hér er á dagskrá og áleitinna spurninga hefur verið spurt um þau plön sem uppi eru. Við finnum það öll að nýja ríkisstjórnin, unga, er ekki með nein plön en ætlar samkvæmt framlagðri þingsályktunartillögu að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Hér í dag þráspurði ég hvernig ætti að fara með þá tillögu. Hún var tekin af dagskrá í dag en nú les ég á vefmiðlunum að setja eigi hana aftur á dagskrá á morgun. Sú umræða sem fer fram núna um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra er ekki til að hlusta eftir sjónarmiðum okkar þingmanna sem erum hér að fjalla um hana.

Ég endurtek því spurningar mínar frá því fyrr í dag: Er forseta alvara með þessari dagskrá?