143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir þessa spurningu. Hún spyr hvað það sé í þessari skýrslu sem rökstyðji það að — hún orðaði það þannig — að slíta viðræðum. Í spurningunni felst að verið er að blanda saman tveimur málum. Við erum að ræða skýrsluna en ég skal vissulega svara spurningunni.

Í þingsályktunartillögunni sem við eigum eftir að fara í gegnum og ræða er tekið fram að það eigi að draga umsóknina til baka. Þegar ekki er fullur vilji að aðild er hreinlegast að draga umsóknina til baka, núllstilla dæmið, og gefa svo færi á því þegar full pólitísk samstaða er um að ganga inn í Evrópusambandið, ef svo verður einhvern tíma í framtíðinni, að gera það þá af einhverri sannfæringu.