143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Er nú ekki bara nóg komið? Það er ekki eins og þessi umræða hafi endilega verið uppbyggileg og að forseta hafi lánast að leiða þennan þingfund áfram til góðs. Þó hefur komið fram hjá hæstv. utanríkisráðherra að hann hyggist endurskoða greinargerðina með þingsályktunartillögunni í samræmi við þær athugasemdir sem hér hafa komið fram og efasemdir um að þarna sé þingskjal sem sé tækt af mörgum ástæðum. En þingheimur hefur enn ekki séð niðurstöðu hæstv. utanríkisráðherra og getað þar með tekið afstöðu til hennar og hvað það er í raun og veru sem við byggjum umræðu okkar á.

Það eru enn töluvert margir eftir á mælendaskrá þannig að við munum ekki klára þessa umræðu hér í kvöld, það liggur algerlega fyrir. Ég árétta þá ósk til hæstv. forseta að við látum gott heita í kvöld.