143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að við séum öll orðin frekar framlág hér í kvöld og mál að linni. Ég veit að vestfirska þrjóskan getur verið mikil, bæði hjá mér og hæstv. forseta, en stundum þurfa menn aðeins að slaka á og ég held að það eigi við í kvöld með hæstv. forseta, hann ætti að hleypa fólki heim að hvíla sig svo það geti komið endurnært í fyrramálið og tekið á þessu máli. Þó að mönnum liggi mikið á, eins og hæstv. utanríkisráðherra, við að koma í veg fyrir að þjóðin gangi í Evrópusambandið held ég að það sé ekki nein hætta á því að við verðum innlimuð í Evrópusambandið (Gripið fram í: Á næstu vikum?) á næstu klukkutímum. Ég held að ég geti alveg róað hæstv. ráðherra varðandi það. Ég veit að hann er órólegur en ég bið hann að taka mig trúanlega, (Gripið fram í.) ég skal með góðra manna aðstoð tryggja að við verðum ekki innlimuð í Evrópusambandið fyrir næsta dag.