143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að allir stjórnmálaflokkar hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Við í Samfylkingunni lofuðum því að þegar samningnum yrði lokið yrði sá samningur borinn undir þjóðina. Aðrir sem studdu þá aðildarumsókn tóku undir það. Það er alveg sama hvað formenn og hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins segja, það er alveg ljóst að kjósendur skildu það svo að það ætti að greiða atkvæði um framhald viðræðna. Þess vegna er tillagan sem hér liggur fyrir alveg eðlileg og ég styð hana heils hugar. Eins og komið hefur fram liggur líka á að hún komi fyrir þingið.