um fundarstjórn.
Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra spurði hér í ræðustól um hvaða frétt ég væri að vísa í. Hún er á visir.is, þar er umfjöllun undir fyrirsögninni „Stendur við orð sín um að Steingrímur hafi sagt ósatt“. Um það var ég að spyrja, um hvað þessi afsökunarbeiðni hæstv. utanríkisráðherra í gærkvöldi snerist. Það voru einhverjir sem gagnrýndu hana og sögðu að þetta hefði verið svona á mörkum þess að vera svokölluð „efsökun“, ekki afsökun, heldur efsökun, þ.e. ef ég hef misboðið einhverjum þá biðst ég afsökunar á því.
Menn voru tilbúnir til að taka viljann fyrir verkið í gær og ég hrósaði hæstv. utanríkisráðherra fyrir það að hafa komið hingað strax. Auðvitað getur það hent okkur öll að snöggreiðast og segja eitthvað sem við sjáum eftir. Þá eru menn auðvitað menn að meiri ef þeir leiðrétta það. (Forseti hringir.) Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Um hvað snerist þessi afsökunarbeiðni í gær?