143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nokkuð sem flestir þekkja og þess vegna hefur mér fundist svolítið skrýtinn þessi mikli áhugi á þessari nýtilkomnu skýrslu um Evrópusambandið, einfaldlega vegna þess að Íslendingar eru búnir að ræða sig rauða í framan í 10, 20 ár um Rómarsáttmálann, um Maastricht-sáttmálann, um Lissabonsáttmálann, um þær reglur og regluverk sem Evrópusambandið hefur verið að koma sér upp og við þekkjum vel t.d. á sviði raforkumála, á sviði nánast alls sem tekur til innviða samfélagsins. Þarna er pakkinn. Við höfum haft hann fyrir sjónum. Við erum að finna fyrir honum í allri lagasmíð og reglugerðarverki á Íslandi. Þarna er pakkinn. Hann stendur okkur fyrir sjónum. Það er alveg skýrt hvað þarna er. Og það er ekki rétt að talsmenn Evrópusambandsins hafi sagt okkur að Íslendingar muni fá varanlegar undanþágur, nema hugsanlega að einhverju sem lýtur að sauðfjárbúskap á norðurheimskautsslóðum.