143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[00:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst varðandi tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ég er tilbúinn að ræða hana. Ég hef sjálfur sagt að það sé vandalaust að halda áfram með þær aðstæður sem nú eru. Það er mjög mikilvægt að loka engum dyrum. Landið er í höftum, gríðarlegir gjalddagar á árinu 2016. Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa enga hugmynd um hvernig þeir ætla að aflétta höftunum og það er full ástæða þess vegna að vera ekki að brenna brýr að baki sér að óþörfu.

Hv. þingmaður spyr mjög skemmtilegra spurninga: Hvað sé best og hvað sé verst eða lakast við aðild að Evrópusambandinu út frá sjónarhóli mínum sem Evrópusinna. Þetta er góð spurning vegna þess að fyrir þjóðina er ekki til eitt svar. Það er hagsmunamat að baki. Við sjáum það á því að sum fyrirtæki eru á móti aðild að Evrópusambandinu vegna þess að þau sjá fyrir sér að með því muni launakostnaður aukast og aðstæður þeirra ekki batna. Svo eru önnur sem sjá hins vegar fyrir sér að þetta muni gefa þeim aukinn kraft og aukna vaxtarmöguleika og það er kannski vegna þess að fyrirtæki hafa ólíka hagsmuni.

Ég nálgast þetta út frá tveimur sjónarhornum. Í fyrsta lagi hef ég rætur í verkalýðshreyfingunni og mér finnst íslenskt launafólk eiga skilið að fá gjaldgengan gjaldmiðil sem ekki er hægt að rýra einhliða, að fólk þurfi ekki að þola ofríki markaðarins eða ofríki stjórnmála og láta rýra launin sín einhliða með stjórnvaldsákvörðunum eða með sveiflum á markaði. Hin nálgunin er að ég er frjálslyndur maður og á Íslandi er það þannig að Ísland er haftasamfélag öfugt við önnur Evrópuríki sem í grunninn eru markaðssamfélög. Þar hafa reglur Evrópusambandsins í mörgum tilvikum verið til að hefta markaðsviðskipti. Hér hefur allt frelsi sem á Íslandi er komið utan frá. (Forseti hringir.) Það er varla hægt að finna nokkurt einasta dæmi um athafnafrelsi eða einstaklingsfrelsi sem við búum við sem hefur orðið til fyrir innlenda baráttu. Það er innflutt í gegnum evrópskar reglur.