143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[01:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka umræðuna inn á þessar brautir. Ég vil í því sambandi benda á, með leyfi forseta, að í greinargerð með þingsályktuninni illræmdu segir:

„Það er einnig óásættanlegt að vera hluti af einhliða aðlögunarferli þar sem jafnframt má eiga von á því að það verði notað til að beita Ísland þvingunum í öðrum óskyldum málum. Slíkt þjónar ekki meginhagsmunum Íslands.“

Nú er ég auðvitað á því að við eigum sem þjóð að gæta hagsmuna okkar, að sjálfsögðu. En þetta er svo mikill grundvallarmisskilningur á því hvað það þýðir að tengjast öðrum þjóðum í ríkjasambandi. Það felur í sér samninga, viðræður, leit að sameiginlegri niðurstöðu. Það er sameiginleg niðurstaða sem fæst fram með samvinnu og gagnkvæmum skilningi sem skilar árangri.

Það hræðir mig pínulítið að mér finnst þessi greinargerð svolítið ala á því að erlend ríki virðist einna helst vilja klekkja á okkur og það sé nánast ómögulegt að við gætum haft eitthvað fram að færa. Eins og ég fór yfir, herra forseti, í ræðu minni, verðum við stærsta fiskveiðiþjóð Evrópusambandsins ef við förum þangað inn. Við eigum að fara inn í viðræðurnar með það að leiðarljósi að við verðum forustuþjóð á sviði fiskveiða, enda hefur Evrópusambandið litið til íslenskra fiskveiðistjórnarkerfisins við endurskoðun á stefnu sinni. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að líta á okkur sem barða þræla heldur sem forustuþjóð á því sviði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)