143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Við þetta hefur verið staðið.

Einnig er ástæða til að rifja hér upp hver stefna þeirra flokka sem mynda núverandi ríkisstjórn er. Með leyfi forseta, ályktaði Framsóknarflokkurinn svo á sínu flokksþingi:

„Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði svo:

„Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Stefna beggja flokka er skýr. Hag Íslands er betur borgið utan Evrópusambandsins. Umsóknin verður dregin til baka og ekki verður lagt af stað á nýjan leik í aðildarviðræður án þess að þjóðin fái úr því skorið.

Aðildarumsókn að ESB hefur ávallt verið mikið hitamál í íslenskri pólitík og umræðan og gagnrýni á allar ákvarðanir tengdar aðild Íslands að sambandinu oft tilfinningaþrungin. Ég bind þó vonir við að umræðan um þessa þingsályktunartillögu — alla vega batt ég vonir við það — verði málefnaleg og byggð á efnislegum rökum og fyrirliggjandi staðreyndum.

Ég tel rétt að fara stuttlega yfir söguna. Ákvörðun um að sækja um aðild var hluti af samningaviðræðum milli stjórnarflokka fyrrverandi ríkisstjórnar en einungis annar flokkurinn hafði það á stefnuskrá sinni fyrir kosningar að ganga í Evrópusambandið. Skoðanakannanir benda til þess að meiri hluti þjóðarinnar vilji ekki ganga í Evrópusambandið. Andstaða við aðild hefur nánast ekkert breyst frá því að aðildarferlið hófst. Meiri hluti þjóðarinnar er enn á þeirri skoðun að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB þrátt fyrir að umræða fjölmiðla og þekking stjórnvalda og annarra hafi stóraukist á sambandinu og þjóðin því vel upplýst um hvað er í boði.

Ný ríkisstjórn var kosin með traustan meiri hluta þar sem flokkssamþykktir beggja flokka kveða á um að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Flokkarnir gerðu með sér stjórnarsáttmála þar sem það er ítrekað að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilji standa utan Evrópusambandsins. Kannanir sýna að meiri hluti aðspurðra vill klára viðræður og þær sýna einnig að meiri hlutinn vill ekki ganga í Evrópusambandið. Þannig hlýtur það að blasa við, líkt og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur ítrekað í umræðu hér á þingi og annars staðar, að það er ómöguleiki í því að halda þessu máli áfram fyrir núverandi ríkisstjórn.

Aðeins um Evrópu og ESB. Evrópusambandið er í stöðugri þróun eins og við vitum og ekki sér enn fyrir endann á þeirri þróun. Sambandið hefur í yfir 50 ár verið meginstoð friðar í Evrópu og undir regnhlíf þess hafa aldagamlir óvinir orðið bandamenn, sem er mjög gott. Evrópusambandið er eitt mikilvægasta ríkjabandalag heims þegar kemur að viðskiptum og einn af okkar helstu viðskiptaaðilum, að sjálfsögðu. Það skiptir máli að innan þess ríki stöðugleiki, hagvöxtur og almennar efnahagslegar framfarir. Vonum við að sjálfsögðu að svo verði sem allra fyrst. Það er hagur okkar sem utan Evrópusambandsins stöndum að þar batni efnahagur og hagsæld aukist því að slíkt mun hafa jákvæð áhrif langt út fyrir raðir sambandsins, líkt og með hagsmuni og hagsæld annarra ríkja eða sambanda og má þar nefna Bandaríkin og fleiri. Viðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins eru jákvæðar og mikilvægar þar sem þær munu setja viðmið fyrir viðræður EFTA-ríkjanna við Bandaríkin sem líklegast munu fylgja í kjölfarið. Náist samningar mun það trúlega hafa mikil og jákvæð áhrif fyrir heimsviðskiptin.

Virðulegi forseti. Enginn dregur í efa mikilvægi þess að halda áfram sterkum tengslum við Evrópusambandið og Evrópuríki. Á það hafa ríkisstjórnarflokkarnir ávallt lagt ríka áherslu og á því verður engin breyting nema síður sé. Ísland og Evrópusambandið starfa náið saman á alþjóðavettvangi. Við veitum hvort öðru gagnkvæman stuðning í mörgum málum, Evrópusambandið talar jafnvel stundum fyrir okkar hönd þegar sjónarmið fara algjörlega saman, við leitum stuðnings þeirra og þeir hjá okkur og við höfum tekið þátt í sumum friðargæsluverkefnum o.s.frv.

Við höfum talað um, og núverandi stjórnvöld hafa hvergi gefið eftir með það, að Evrópusambandið eigi að fá stöðu áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu svo að dæmi sé tekið, þannig að við vinnum þétt og ágætlega saman og meðal annars að jarðvarmavinnslu í Afríku svo að eitthvað sé nefnt. Þannig hefur sú tillaga sem hér er mælt fyrir engin áhrif á það meginviðhorf ríkisstjórnarinnar að eiga sterk og náin tengsl við ESB. Við viljum efla þau án þess þó að það sé gert á forsendum aðildarumsóknar.

Nú fyrir skömmu átti ég samtöl við stækkunarstjóra Evrópusambandsins, Stefan Füle, og nokkra utanríkisráðherra aðildarríkja sambandsins þar sem ég tjáði þeim um ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Sem fyrr ríkti skilningur á þessari ákvörðun og kom meðal annars fram að Ísland er velkomið í Evrópusambandið þegar og ef við verðum tilbúin til þess. Á meðan munum við efla okkar tvíhliða samvinnu, og embættismenn okkar áttu einnig samtöl á þessum nótum. Í þessu samhengi vil ég undirstrika að það er margt spennandi og áhugavert fram undan í okkar samskiptum sem ég veit að munu ganga fyrir sig með jafn jákvæðum hætti nú sem fyrr.

Virðulegi forseti. Heimurinn er miklu stærri en Evrópa. Íslendingar eiga þess kost að stunda viðskipti og starfa með hvaða þjóðum heims sem við náum samstarfi við, hvort sem það er innan Evrópu eða utan. Það gerum við á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem gerðir eru á okkar forsendum. Um leið og við vonum að Evrópa rétti hraustlega úr kútnum bíða okkar einnig ný tækifæri í Asíu, Afríku, Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og áfram mætti telja. Fram undan er að kortleggja enn frekar sóknarfæri íslensks atvinnulífs.

Við munum horfa sérstaklega til þess að efla samband okkar við Kanada og Bandaríkin og tryggja framgang fríverslunarsamnings við Kína, stuðla að viðræðum við önnur Asíuríki og í skoðun er að fara með viðskiptasendinefnd til Suður-Ameríku, en við finnum mikinn áhuga í íslensku viðskiptalífi og atvinnulífi á því að stækka þann heim sem Íslendingar geta tekið þátt í með viðskipti. Að halda því fram að Ísland á einhvern hátt einangrist utan Evrópusambandsins er í besta falli undarlegt meðan flestöll ríki heims horfa í sömu átt, leita að nýjum viðskiptum í öðrum og nýjum löndum ætlar þessi ríkisstjórn að gera það einnig.

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir vönduð skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem inniheldur efnismikla úttekt á stöðu aðildarviðræðnanna og þróun Evrópusambandsins á ýmsum sviðum. Nokkrir dagar hafa nú farið í umræðuna, ekki endilega um skýrsluna, og er ekki ástæða til að ég endurtaki það sem fram kom í framsögu minni varðandi skýrsluna. En það eru þrjú atriði sem þessi tillaga felur í sér.

Í fyrsta lagi að draga umsóknina til baka — í ljósi alls þess sem á undan er gengið kemur það ekki á óvart að ríkisstjórnin leggi til að draga aðildarumsóknina til baka. Margir hafa kallað eftir því að stefnu ríkisstjórnarinnar séu gerð skýr skil og hér er það að gerast.

Í öðru lagi er talað um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er grunnstefið í stefnu stjórnarflokkanna að komi til þess að til standi að hefja aðildarviðræður á ný verði það ekki gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvitað geta svo komið fram þingsályktunartillögur á þessu kjörtímabili eða næsta sem breyta þessu öllu saman.

Frá því að þetta ferli hófst hafa kannanir sýnt að þjóðin vill ekki ganga í Evrópusambandið og við lofum því að sjálfsögðu hér og nú að ekki verður farið í slíkan leiðangur aftur með slíkt veganesti sem hér var gert 2009 heldur verði þjóðin spurð.

Virðulegi forseti. Í þriðja lagi hefur grunnstefið í málflutningi þessarar ríkisstjórnar í utanríkismálum frá upphafi verið að styrkja beri og efla tengsl við Evrópusambandið og Evrópuríki. Það verður best gert á öðrum grundvelli en innan þess ramma sem aðildarumsóknin veitir. Það fer vel á því að ítreka þessa stefnu hér og einfaldlega festa hana í sessi með því að Alþingi álykti á þeim nótum. Slík ályktun yrði þá til enn frekari stuðnings mikilvægri ályktun Alþingis frá febrúar 2013 um að efla hagsmunagæslu Íslands í Evrópusamstarfi sem flutt var af núverandi hæstv. forseta Alþingis, Einari K. Guðfinnssyni.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin telur að sú skýrsla sem hér var lögð fram frá Hagfræðistofnun, ásamt allri forsögu þessa máls og stefnu flokkanna að sjálfsögðu, hafi leitt í ljós að best fari á því að mál þetta verði núllstillt af virðingu við Evrópusambandið, aðildarríki þess og okkur öll.

Allt frá því að ég tók sæti á Alþingi og í utanríkismálanefnd hefur mér þótt erfitt að þurfa, á fundum með vinum okkar í Evrópu, að útskýra það hvernig til þessa ferils var stofnað. Við værum bara að skoða okkur um í búðinni, við ætluðum ekkert endilega að kaupa neitt. Viljinn til inngöngu var hjá einum stjórnmálaflokki sem gerði samning við annan stjórnmálaflokk. Kjósi menn að setja annað ferli af stað verður það einungis gert með skýrt skilgreindum og ákveðnum hætti líkt og hér er lagt til.

Virðulegi forseti. Einhverjir óttast að allt sé nú í uppnámi og halda jafnvel að innganga í Evrópusambandið með upptöku evrunnar hefði leyst gjaldeyrishöftin. Ég tel því ástæðu til að minna á að forsenda upptöku evru er að við stöndumst Maastricht-skilyrðin og því miður er nokkuð í að það takist þó að við reynum okkar besta. Við verðum að taka til hjá okkur sjálfum, það liggur ljóst fyrir. Það verðum við að gera á styttri tíma en það tæki okkur að taka upp evruna. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vinnur að áætlun um afnám hafta og fullyrði ég að sú áætlun er mun metnaðarfyllri en þeirra sem bíða vilja jafnvel áratugi eftir evrunni.

Með því að ljúka þessu máli með þeim hætti sem hér er lagt til er kominn skýrleiki sem ég hygg, þegar rykið hefur sest, að flestir — þó örugglega ekki allir — kunni að meta.

Að því sögðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.