143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

launakjör og yfirvofandi verkfall framhaldsskólakennara.

[16:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er margt í gangi í samfélaginu, ekki bara það mál sem hefur verið mest til umræðu hér. Næstkomandi mánudag gæti skollið á verkfall framhaldsskólakennara sem hefur áhrif á hátt í 20 þús. framhaldsskólanemendur. Það verður að segjast eins og er að hvert sem ég fer þar sem ég hitti framhaldsskólanema heyri ég að þeir hafa þungar áhyggjur af því ef skellur á langvinnt verkfall.

Þótt hæstv. menntamálaráðherra sé ekki sá sem gerir kjarasamninga hefur hann hins vegar aðkomu að þeim í gegnum fulltrúa sína og iðulega hafa menntamálaráðherrar í gegnum tíðina lagt eitthvað inn í slíkar umræður með einhverju útspili, t.d. bókunum í kjarasamninga. Hæstv. núverandi menntamálaráðherra hefur sagt að í raun sé ekkert í boði umfram almennar launahækkanir á vinnumarkaði nema framhaldsskólinn verði styttur með kerfisbreytingu og þá hefur hæstv. ráðherra, a.m.k. sá ég það eftir honum haft, sagt með því orðalagi að hægt væri að nýta styttinguna til að búa til launahækkunarmöguleika.

Ég vil því inna hæstv. ráðherra að þrennu:

Mig langar að spyrja hann, í ljósi þess að ég þykist vita að hann sé mér sammála um að kennarastarfið sé mikilvægasti þáttur í öllu skólastarfi, hvort hann telji að framhaldsskólakennarar hafi setið eftir í launaþróun miðað við aðra sambærilega hópa með sambærilega menntun.

Þegar hæstv. ráðherra talar um að skoða launahækkunarmöguleika, snúast þeir þá um að spara með því að stytta framhaldsskólann, í stað þess að fara eftir því sveigjanlega kerfi sem var komið á með lögunum 2008, og fækka þannig kennurum og hækka laun hinna sem eftir sitja?

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra því að verkfall hefur verið boðað á mánudaginn eftir viku. Fyrir átti að liggja hvítbók með ákveðinni stefnumótun um hvernig ætti að þróa framhaldsskólann. Liggur hún fyrir? Ég hef ekki fundið hana á heimasíðu ráðuneytisins. Átti Kennarasamband Íslands fulltrúa við vinnslu hvítbókarinnar?