143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún gekk eiginlega eingöngu út á kosningasvik Sjálfstæðisflokksins.

Hv. þingmaður átti nú í fyrri ríkisstjórn samstarf við flokk sem hafði lofað því að ganga ekki til samstarfs við AGS, aldrei samþykkja Icesave og ekki ganga í Evrópusambandið en rann þó á því öllu saman, það eru Vinstri grænir. En ég geri að sjálfsögðu miklu meiri kröfur til Sjálfstæðisflokksins og ég er alveg sammála því að hann eigi að standa við sín kosningaloforð.

Þá er það spurningin: Hvernig voru þessi kosningaloforð? Eins og hv. þingmaður las þá stendur í öllum þessum loforðum: Ef haldið er áfram viðræðum þá skulu fara fram (Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei.) kosningar. (Gripið fram í.) Og menn sögðu líka að farið yrði í kosningar. En nú er komin upp sú staða að menn ætla ekkert í viðræður (Gripið fram í: Nei …) áfram. Menn ætla ekki að halda þeim áfram, það stendur ekki til. Ég spyr þá hv. þingmann tveggja spurninga, annars vegar: Af hverju var ekki gengið til kosninga þegar ákveðið var að ganga í Evrópusambandið? Það er miklu stærra mál, afsal á sjálfstæði þjóðarinnar, breyting á stjórnarskrá o.s.frv. til þess að geta afsalað sjálfstæðinu og fullveldinu. Af hverju var þjóðin ekki spurð að því hvort hún vildi það? Hún var aldrei spurð að því, hún hefur ekki verið spurð enn þá. (Gripið fram í.)

Og hins vegar: Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér og hversu trúverðugt er það ef tveir flokkar sem mynda ríkisstjórn ætla að fara að vinna að því að gera samning um að gera eitthvað sem er þvert á stefnu þeirra? Hversu trúverðugt yrði það? Daginn eftir að það yrði samþykkt færu menn að efast um trúverðugleikann í því máli þannig að ég get ekki séð hvernig í ósköpunum menn ættu að framfylgja stefnu sem þeir eru eindregið á móti.