143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum 2. útgáfu af tillögu að þingsályktun um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, tillögu sem jafnframt fjallar um að efla samstarf við ESB og Evrópuríkin. Tillagan er nefnilega þrískipt. Í fyrsta lagi að draga til baka umsóknina. Í öðru lagi að ekki skuli sótt um aðild að ESB á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla, sem er býsna merkilegt að ríkisstjórnin ætli þá að binda næstu ríkisstjórnir hvað það varðar. Í þriðja lagi að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu. Ríkisstjórnin gerir sér greinilega grein fyrir því að erfitt sé að vera án samstarfs við Evrópu og að eyða þurfi verulegum peningum til að bæta þar úr fyrst menn vilja ekki fara inn í sambandið.

Tillagan var kynnt í skjóli nætur í helgarfríi Alþingis að kvöldi föstudags 21. febrúar þegar umræðan um skýrslu Hagfræðistofnunar var rétt að byrja. Þingmenn fengu þá SMS-skilaboð, sem er nú orðin svolítil lenska í stjórnkerfinu, um að þetta nýja þingskjal utanríkisráðherra hafi verið lagt fram í þinginu. Í ræðunni sem fylgdi í upphafi málsins, þegar var verið að ræða um skýrsluna, var talað um opna og hreinskipta umræðu, ekki bara í þinginu heldur í þjóðfélaginu. Og þá veltir maður fyrir sér af hverju tillagan komi ofan í það. SMS-ið kemur frá þinginu um að lögð hefði verið fram tillaga á Alþingi. Þannig barst það til okkar þingmanna, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Það er bara venjan.

Mig langar að vekja athygli á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, af því að mér finnst eðlilegt að líta í hana, auk þess hvað menn sögðu hér fyrir kosningar.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Síðan hefur hafist tog um hvað þetta þýddi. Mér fannst þetta afar skýrt. Það átti að gera hlé. Það átti að fara í almenna umræðu í samfélaginu til að leggja mat á þetta, skýrslan frá Hagfræðistofnun var einn hluti af því og síðan mundum við ræða þetta vandlega í þinginu.

Hvers vegna kemur þá þessi tillaga allt í einu fram, mitt inn í fyrstu skýrslu, en von er á annarri frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands sem beðið er um af aðilum vinnumarkaðarins? Hvað var það sem rak málið áfram? Hvað gerðist? Hvað varð um málefnalega og opna umræðu á Alþingi og í þjóðfélaginu? Hvað varð um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem núverandi ráðherrar töluðu um, eins og hér var rakið ágætlega af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur áðan? Hvað varð um loforð núverandi ráðherra fyrir kosningar og margra þingmanna um að engar ákvarðanir yrðu teknar nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þá spurðu margir: Ætlar ríkisstjórnin enn og aftur að beita ofríki og svíkja loforð sín og stöðva aðildarumsóknina fyrir fullt og allt án frekari umræðu? Hæstv. utanríkisráðherra leyfði sér jafnvel að viðurkenna að það hefði aldrei staðið til að skýrslan sem slík og kynning fyrir þjóðinni þyrfti að fara fram áður en ákvarðanir voru teknar.

Stóð þetta í stjórnarsáttmálanum? Var þetta rætt í kosningunum? Hér var augljóst að afturhalds- og sérhagsmunaöflin virtust telja sig geta drepið umræðuna í fæðingu og ætluðu að gera það í skyndi af því að þau óttuðust að þjóðin væri að kalla eftir frekari umræðu og fá aðkomu að málinu.

En það voru ekki allir sammála. Einn af fyrrverandi formönnum Sjálfstæðisflokksins — þá er ég ekki að tala um þann sem stjórnar ofan úr Hádegismóum — kallaði þessa þingsályktunartillögu eitt stærsta kosningasvikamál sögunnar. Eitt stærsta kosningasvikamál sögunnar, þetta eru ekki orð frá Samfylkingunni eða öðrum. Þetta er frá fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins.

Fyrrverandi varaformaður sama flokks, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segir orðrétt, með leyfi forseta: „Það er orðhengilsháttur að viðurkenna ekki að stjórnarflokkarnir séu að svíkja kosningaloforð sín með því að slíta aðildarviðræðum við ESB.“

Í framhaldi af þessu hefjast mótmæli á Austurvelli og á laugardagseftirmiðdegi koma 7–8 þús. manns, jafnvel fleiri, til að mótmæla því gerræði ríkisstjórnarinnar að taka málið úr höndum þjóðarinnar. Búið er að safna tæpum 50 þús. undirskriftum þar sem þess er krafist að menn standi við þau loforð sem þeir gáfu fyrir kosningar, þ.e. að þjóðin fái að koma að málinu áður en það verður afgreitt.

Það er skýlaus krafa Samfylkingarinnar að þessi tillaga verði dregin til baka og að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna eins fljótt og auðið er.

Umræðan í þinginu kann að virðast harkaleg um tillöguna og um skýrslu Hagfræðistofnunar, en ég bið landsmenn alla og hv. þingmenn að hafa það í huga hvernig þetta bar að. Hvar birtist harkan? Og munum það að þegar tillagan kom fram stóð beinlínis í tillögunni að þeir hv. þingmenn sem tóku ákvörðun um að fara í aðildarferlið hefðu gert það með einhverjum undarlegum hætti og þar með brotið stjórnarskrána. Það er setning sem hæstv. utanríkisráðherra varð síðan að draga til baka einfaldlega vegna þess að hún var ósönn og ómálefnaleg og svívirðileg aðför að hv. þingmönnum hér í sal, þeim sem sátu á þinginu þá réttara sagt. Þess vegna kallaði ég þetta tillögu númer tvö vegna þess að ekki má gleymast að það varð að breyta henni einfaldlega til að menn væru ekki með svona alvarlegar ásakanir.

Umræðan um tillöguna og ástæðan fyrir því að rætt hefur verið um störf þingsins og fundarstjórn forseta er sú hvernig tillagan kom fram. Af hverju var gerð tilraun til að slíta umræðunni með því að koma með þá tillögu sem við ræðum? Ásökunin sem ég nefndi áðan um að átt hefði sér stað stjórnarskrárbrot. Líka það að ekki lá fyrir, þegar tillagan um skýrsluna á sínum tíma var lögð fram, að fara ætti með hana í þinglega meðferð þannig að hún færi í utanríkismálanefnd, yrði rædd þar og kæmi svo aftur til umræðu í þinginu. Búið er að skera úr um það, en við stöndum enn með það óljóst hvernig á að fjalla um þær tvær tillögur sem eru til umræðu í þinginu á eftir þessari, því að tíminn til að fjalla um þær er afar stuttur.

Það er forvitnilegt að skoða líka þessa tillögu, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur kallað eftir því að hér eigi að vera málefnaleg og rökföst umræða, menn eigi að ræða um málin með rökum. Því er til dæmis haldið fram að þegar aðildarumsóknin var sett fram hafi þingsályktunin sætt þungri gagnrýni, þ.e. um að fara í aðildarviðræður. Það eru rök til að draga þá umsókn til baka. Eru þá ekki alveg eins rök að vegna þungs ágreinings um þá tillögu sem hér er verði hún dregin til baka? Ég spyr vegna þess að menn biðja um rökræna umræðu.

Langur vegur hafi verið frá því, segir líka í athugasemdum, að um það hafi ríkt sú sátt og sá stuðningur sem almennt er talinn nauðsynlegur grundvöllur ferlis af því tagi sem hér um ræðir. Má ekki með nákvæmlega sömu rökum segja að það sem er í greinargerð þessarar tillögu gildi um það að það eigi alls ekki að styðja hana vegna þess að hér er enginn almennur stuðningur í landinu? 80% þjóðarinnar vilja að menn fái að kjósa um hana og þar af leiðandi fullkomlega órökrétt að hún verði afgreidd í þinginu óbreytt eins og hæstv. utanríkisráðherra lagði hana fram.

Síðan koma enn merkilegri rök. Með leyfi forseta stendur í greinargerðinni:

„Þá hefur lengi legið fyrir að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að Ísland gangist undir skilmála Evrópusambandsins og gerist þannig meðlimur þess“ — gott og vel, svo fylgir að vísu — „þótt vilji sé fyrir að kanna möguleika á aðild.“

Nú liggur fyrir að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill þjóðaratkvæðagreiðslu og ef menn ætla að fara að líta til skoðanakannana sem ég tel eðlilegt og sjálfsagt að gera, af hverju er þá þessi tillaga ekki bara dregin til baka og viðurkennt að menn hafi orðið viðskila, þ.e. þjóðin og ríkisstjórnin? Þetta er ágætlega orðað á forsíðu á visir.is í dag þar sem fyrirsögnin er, með leyfi forseta:

„Segir þjóðina ekki tilbúna í þessa vegferð með ríkisstjórninni.“

Í hvern skyldi vera vitnað varðandi þessa fyrirsögn? Það er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, sem hér var minnst á áður í dag.

Hægt er að halda svona áfram. Því miður er tíminn afar naumur til að fara yfir málið, en athyglisvert er að fylgjast með hvernig menn hafa tekið þessa umræðu, eins og hjá Viðskiptaráði, hjá þingi iðnfyrirtækja, á iðnþinginu, o.s.frv. Þar spyrja menn einfaldlega: Hvert er planið, hvað stendur til? Hvert ætlar þjóðin að fara? Höfum við það svo gott að við þurfum ekki að gera neinar áætlanir? Jú, við ætlum að reyna að auka samstarfið við Evrópusambandið með því að slíta viðræðum við það. Er það Evrópustefnan?

Menn spyrja í einlægni hver á fætur öðrum: Hvað á að taka við? Hvernig ætla menn að leysa það að við erum með margar íslenskar krónur í dag? Hér eru stór fyrirtæki, eins og öll útgerðin, sem meira og minna eru í Evrópusambandinu, sem fá sínar tekjur í erlendum gjaldmiðlum, borga sinn kostnað meira og minna í Evrópugjaldmiðlum. Eina sem þau njóta góðs af er að launin eru lækkuð með því að fella (Forseti hringir.) gengið. (Gripið fram í.)

Hægt er að halda svona áfram, því miður er tíminn allt of stuttur. Ég ítreka þá kröfu að tillaga þessi verði dregin til baka, (Forseti hringir.) menn byrji upp á nýtt og reyni að finna betri flöt á málinu og láti þjóðina segja sína skoðun.