143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að staðan sé nú ekki þannig að ef við göngum ekki í Evrópusambandið verði ekki hægt að búa hérna, en það verður verra. Atvinnulífið verður einhæfara og það verða margir sem munu ekki geta stundað atvinnu sína og búið á Íslandi. Það er alveg ljóst. Við munum áfram eyða fúlgum fjár á hverju ári til þess að halda úti gjaldmiðlinum hvort sem hann verður fljótandi eða ekki, ég get reyndar ekki séð hann fyrir mér fljótandi. Við erum að tala um lítinn gjaldmiðil sem 320 þús. manns halda uppi, sem við viljum keppa með á svæði og við gjaldmiðil sem 500 milljónir halda uppi. Það er ójafn leikur og það verður alltaf dýrt fyrir okkur að halda úti þessum gjaldmiðli, fyrir utan það að ef við tækjum upp evru mundu vextir lækka. Það sýnir þessi ágæta skýrsla Seðlabankans sem ég vona að allir hv. þingmenn hafi skoðað og pælt í gegnum, hún skýrir svo vel og leiðir sterkar líkur að því að hér muni vextir lækka. Farið hefur verið yfir það að lækkun á útgjöldum heimilanna yrði 100 milljarðar, 45 milljarðar fyrir ríkissjóð og 65 milljarðar fyrir fyrirtæki. Það gefur náttúrlega augaleið að við erum að tala um rúmlega 200 milljarða sem við gætum aldeilis gert eitt og annað fyrir til að bæta lífskjör í landinu.

Þannig að ég segi, virðulegi forseti, sem svar við spurningu hv. þingmanns: Það yrði ekki óbyggilegt á Íslandi þótt við færum ekki í Evrópusambandið, en kjör okkar mundu áfram verða verri og atvinnulífið einhæfara. (Forseti hringir.) Það er auðvitað val (Forseti hringir.) sem þjóðin stendur frammi fyrir.