143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég og hv. þingmaður erum sammála um eitt í þessu máli, (Gripið fram í.) kannski tvennt, við erum sammála um að við eigum að leiða þetta mál til lykta. Ég held að það skipti mjög miklu. Við þingmenn getum svo sem alveg staðið hér og sagt að þetta hafi verið sagt áður og fabúlerað og velt vöngum yfir því hvað gæti hugsanlega komið út úr því ef við ljúkum þessum viðræðum. En ég tel það ekki skynsamlegt frekar en hv. þingmaður og því er best að ljúka viðræðunum þannig að Íslendingar allir geti tekið upplýsta ákvörðun. Við þingmenn semjum ekki um niðurstöðuna hér okkar í milli heldur er það gert af harðsnúinni samninganefnd héðan við þá sem staddir eru í Evrópu.

Það eru samt nokkur atriði sem ég verð að nefna. Ég er ósammála hv. þingmanni og fullyrðingum hennar áðan, eins og því að misskipting hafi ekki aukist vegna þess að við erum ekki í ESB. Jú, það má segja að það sé ekki beint ESB að kenna og því að við séum ekki þar inni. En það breytir ekki því að á Íslandi í dag búum við við þá stöðu að stærstu fyrirtækin gera upp í erlendri mynt. Þau nota ekki krónuna. Þeir sem nota verðtryggðu íslensku krónuna eru almenningur og lítil fyrirtæki. Þannig er staðan á Íslandi í dag. Segja má að í því sé falin ákveðin misskipting vegna þess að við tökum á okkur kostnaðinn við krónuna á meðan stærstu fyrirtækin og þeir sem þau eiga gera það ekki. Í þessu er að mínu mati fólgin misskipting og það er út af því sem ég vil fara alla leið með þessar viðræður. Ég vil sjá hvaða niðurstöðu við getum fengið hvað varðar gjaldmiðilinn vegna þess að ég tel að ekki sé hægt að nota krónuna áfram. Við sjáum það bara strax núna af því að krónan er komin í höft aftur og farin að verða handstýrð af Seðlabankanum, (Forseti hringir.) að þá eru einstaka atvinnuvegir í landinu farnir að gera kröfur sér til handa.