143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Flokkssystkin mín tvö og einnig hv. þingmaður Vinstri grænna hafa hér fyrr í dag farið þess á leit að forseti kallaði til ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hafa ekki sýnt sig við þessar umræður, hvorki í dag né undanfarna daga, þó að þeir hljóti að verða að gera hér grein fyrir skoðun sinni á þessari tillögu um að aðildarumsókn verði dregin til baka. Þeir sem hafa setið á forsetastóli í dag hafa tekið því vel að leita til ráðherranna og athuga hvort þeir mundu koma. Ég ætlaði að spyrja hæstv. forseta hvort eitthvað hafi komið út úr því, hvort við mættum búast við því að ráðherrar kæmu hingað og gerðu okkur þann heiður að vera með okkur síðustu þrjú korterin á þessum fundi í dag.