143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal svara eins vel og ég get á tveimur mínútum en það verður ekki burt séð frá Evrópusambandinu því að það er Evrópusambandið sem við ræðum hér.

Ég held að einn mikilvægur lærdómur af því sem aflaga fór sé sá að við höfum byggt upp samfélag, stofnanir og lýðræðiskerfi utan um markað, utan um frjálsan markað, vegna þess að við trúum því að frjáls markaður sé drifkraftur framfara og efnahagslegrar velsældar og skapi okkur sem heild þau bestu lífskjör sem við mögulega getum náð. En frjálsum markaði fylgja brestir, markaðsbrestir og margvísleg samfélagsleg viðfangsefni sem við þurfum að taka á saman.

Nú er það svo að við höfum ákveðið að verða hluti af 500 milljóna manna markaði, af evrópska markaðnum. Þeir brestir sem orðið geta á þeim markaði geta, hafa og munu hafa áhrif á Ísland. Þess vegna eigum við að vera hluti af því lýðræðiskerfi, af því eftirlitskerfi, af því stjórnkerfi og af þeim samfélagslegu úrlausnum sem hafa verið byggð utan um þennan 500 milljóna manna markað, vegna þess að það sem við réðum ekki við var að við vorum með fyrirtæki sem voru þúsund sinnum of stór fyrir okkar litla lýðræðiskerfi og okkar litla stjórnkerfi. Það var í meginatriðum það sem aflaga fór.

Hitt getum við svo lært af því hversu miklu fljótari menn annars staðar á Norðurlöndunum voru út úr kreppunni að í erfiðleikum er alltaf miklu betra að vinna sig út úr þeim í samstarfi við aðra. Það á við okkur sem einstaklinga að okkur gengur betur að vinna okkur út úr erfiðleikum með samstarfi við fjölskyldu okkar og við vini okkar, og eins er það um þjóðir að þeim gengur best að vinna sig út úr efnahagslegum erfiðleikum með samstarfi við helstu viðskiptaþjóðir sínar. Það eru lönd (Forseti hringir.) Evrópusambandsins. Þess vegna eigum við að vera í því.