143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil enn mótmæla því að hér sé haldinn næturfundur um mál sem ekkert liggur á. Hæstv. utanríkisráðherra hefur farið í fjölmiðla og sagt að ekkert liggi á málinu. Hvernig stendur á því að okkur er haldið á næturfundi ef ekkert liggur á málinu? Hver er skýringin, virðulegur forseti? Við hljótum að eiga heimtingu á því að fá að vita hana.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er kominn í hús og ég geri ráð fyrir að hann fari á mælendaskrá. Ég er mjög seint á mælendaskrá og vil spyrja hæstv. forseta: Ef það er virkilega meiningin að halda áfram, og ég vona sannarlega að svo sé ekki, hversu lengi á að halda áfram? Hvenær getur sá sem er síðastur á mælendaskrá gert ráð fyrir því að hann komist að ef tæma á mælendaskrá hér í nótt? (Forseti hringir.)