143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu sem ég tel afar brýna. Eins og fram hefur komið var fyrsti samningurinn gerður á árinu 2001 við sveitarfélögin á Austurlandi og fyrst var úthlutað samkvæmt honum á árinu 2002. Hugsunin þá var að það fjármagn sem áður hafði komið eftir ýmsum leiðum frá ríki til menningarstarfsemi í landshlutanum, m.a. í gengum úthlutun fjárlaganefndar og úr ýmsum sjóðum ríkisins, yrði veitt í einn farveg ásamt mótframlagi sveitarfélaga og því yrði síðan úthlutað eftir skýrum og markvissum leiðum í landshlutanum. Um leið yrði allt starf á þessu sviði markvissara og fleiri tækifæri sköpuðust til að byggja upp til framtíðar.

Eins og segir í fyrsta samningnum, með leyfi forseta:

„Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf á Suðurlandi og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga á Suðurlandi við slíkt starf í einn farveg. Jafnframt eru áhrif sveitarfélaga á forgangsröðun verkefna aukin.“

Í kjölfarið voru smátt og smátt gerðir sambærilegir samningar í öðrum landshlutum, þeir síðustu 2007. Samhliða stofnuðu sveitarfélög menningarráð í landshlutunum. Hlutverk þeirra var að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, hvetja til samstarfs og faglegra vinnubragða og stuðla að almennri vitund og þekkingu við málaflokkinn.

Markmið samninganna var að undirbyggja atvinnusköpun á þessu sviði og vera einir af hvötunum fyrir vel menntað fólk á sviði menningar og lista til að setjast að á landsbyggðinni og til að jafna aðstöðu milli landshluta til að skapa og njóta menningar. Þess vegna eru tafirnar sem nú hafa orðið á endurnýjun samninga bagalegar fyrir allt menningarstarf í landinu. Einnig hafa í gegnum tíðina, samhliða endurnýjun samninga, fleiri verkefni verið færð af safnliðum fjárlaga yfir á menningarsamningana og þannig hefur smátt og smátt dregið úr heildarframlögum til menningarstarfs á landsbyggðinni á kostnað starfsins þar.