143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna mjög andsvari hv. þm. Brynjars Níelssonar og sérstaklega þessu með almannaréttinn inn í stjórnarskrána, því er ég auðvitað hjartanlega sammála. Ég lít þetta greinilega svipuðum augum og hann þó svo ég dragi ekki dul á að í hinum besta heimi allra heima væri enginn einkaeignarréttur til á landi, heldur væri allt land á öllum hnettinum sameiginleg eign mannkynsins og óborinna kynslóða. Það sem menn hefðu væri hins vegar búseturéttur, afnot af landi, nýtingarréttur, langtímaleiga þar sem þeirra hús stæðu o.s.frv.

Grænlenska fyrirkomulagið er ekki hið fullkomna fyrirkomulag, enda bjó þar menningarþjóð í þúsundir ára í ótrúlegu sambýli við náttúruna og það var sjálfur tilvistargrundvöllur hennar að enginn slægi eign sinni í einkaeignarréttarlegum skilningi á land eða veiðistöð. Menn urðu að nýta það saman, annars hefði þjóðin ekki komist af. Þetta kenndi sagan mönnum og þetta var inngróið í menningu þeirra og það hefur haldið þannig að enginn á land í Grænlandi í einkaeignarréttarlegum skilningi. Það væri besta fyrirkomulagið.

Varðandi gjaldtökuna og annað með réttinn þar, auðvitað er það þannig að ef umferð verður í svo miklum mæli að til vandræða yrði, nema viðbúnaður sé, þá geta komið upp þau sjónarmið að það sé bara í þágu þess að greiða fyrir því að menn geti skoðað staði eða að aðstaða og uppbygging sé á staðnum. Ég mundi ekki blanda því saman við för einstaklinga í einhverjum öðrum tilgangi um land. Ég mundi telja að ég hafi rétt til þess að fara hvar sem er þvert í gegnum Geysissvæðið án þess að borga krónu á grundvelli almannaréttarins og Jónsbókar. Ég hef bara ekki haft tíma til að gera það. En ég skil það auðvitað alveg þegar fjöldi ferðamanna hrúgast saman á ákveðin svæði. Og jú, það er vissulega rétt, því miður, að við sváfum allt of lengi á verðinum gagnvart hinni (Forseti hringir.) miklu fjölgun ferðamanna, að veita fé í innviðauppbygginguna þannig að menn gætu ekki réttlætt neyðina til að fara að rukka inn á einstökum svæðum.