143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna hverri þeirri skýrslu sem kemur fram um þessi málefni sem og önnur sambærileg. Ég er afskaplega ánægður með að við skulum vera að ræða þetta mál hér og nú. Ég vona að umræðan verði djúp og vonandi verður hún ekki aðeins tekin hér heldur líka meðal þjóðarinnar allrar.

Ég vil fyrst segja varðandi upplegg skýrslunnar, og við náðum að ræða það í hv. utanríkismálanefnd í morgun, að það er nokkuð sem mér fannst vanta í hana. Það kom mér á óvart af því að ég hefði talið líklegt að þeir aðilar sem að málinu standa hefðu tekið þann pól í hæðina að ræða það sem ekki var rætt, það var ekkert upplegg fyrir fræðimennina og þess vegna skrifuðu þeir það ekki. Það var ekkert rætt um þau tækifæri sem við höfum fyrir utan Evrópusambandið, þau gríðarlegu tækifæri sem við höfum með því að ráða algerlega okkar viðskiptastefnu og í samstarfi við EFTA-þjóðirnar. Það var ekkert skoðað.

Það kom skýrt fram í nefndinni að ekki var lagt upp með að þetta væri sérstakt hagsmunamat. Ég held líka að ekki sé mjög raunhæft, eins og bent var á, að setja það upp í excel-skjal, þannig að við þurfum kannski ekki að ræða það frekar.

Það olli mér líka miklum vonbrigðum að sjá viðmælendur skýrsluhöfunda þar sem mér fannst vanta, sérstaklega meðal útlendinganna sem talað var við, aðila sem eru gagnrýnir á Evrópusamstarfið og hvernig það hefur þróast. Ég held að skýrslan hefði styrkst og orðið betri ef farin hefði verið sú leið að ræða við þá.

Það hefur komið fram og kom fram í umræðum í nefndinni að auðvitað hefði evran ekki bjargað okkur frá bankahruninu. Það kom líka fram, sem ég vissi ekki, að vinnuhópurinn um afnám gjaldeyrishafta, sem hefur verið gagnrýnt að hafi verið leystur upp, var í rauninni ekki að vinna að afnámi gjaldeyrishafta. Hann var fyrst og fremst upplýsingahópur þar sem menn ræddu um stöðu mála. Það sem mér finnst hins vegar mikilvægt, af því að við erum að borða fíl og best að gera það í litlum skömmtum, er að við erum komin á þann stað að allir eru sammála um að við þurfum að vera aðilar að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu. Það hefur komið mjög skýrt fram. Fram til þessa hafa verið allrahanda yfirlýsingar um eitthvað annað og þá erum við að tala um sérlausnirnar. Einhver embættismaður sagði að við gætum ekki fengið sérlausnir eins og Azoreyjar, Kanaríeyjar og fleiri varðandi sérstök fiskveiðistjórnarsvæði. Skýrsluhöfundar telja að það sé ekki rétt hjá viðkomandi embættismanni en við skulum þá skoða í hverju sérlausnirnar felast. Það hefur komið skýrt fram að það eru ekki varanlegar undanþágur. Það kom fram í skýrslu Hagfræðistofnunar og vil ég sérstaklega vísa í viðauka III þar sem Stefán Már Stefánsson prófessor skrifaði að þetta væri afleiddur réttur og umbreytanlegur af hálfu Evrópusambandsins. Það liggur alveg fyrir að ef við erum aðilar að sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni höfum við ekki sama forræði og við höfum nú. Reyndar er það þannig að þá erum við einungis með eftirlit og refsingar, annað fer til Brussel.

Varðandi ERM sem mikið hefur verið rætt hér, og ég get ekki rætt lengi á þeim stutta tíma sem ég hef, hvet ég menn til að lesa þann kafla. Mér hefur ekki fundist fréttaflutningur á þeim kafla vera í samræmi við það sem þar stendur. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að fara þá leið þurfum við fyrst að afnema höftin, við þurfum að uppfylla Maastricht-skilyrðin og þá gætum við í besta falli klárað það tveimur árum eftir að við erum búin að klára þessa þætti. Það er enginn vafi á því að langþyngsti þátturinn er sá sem snýr að skuldamálum hins opinbera, ríkisins, varðandi Maastricht og ég tel þess vegna nokkuð vel í lagt að telja tvö, þrjú ár líklegt. Það er líka ágætt að fara yfir það í kaflanum hvernig mismunandi þjóðum hefur vegnað í því samstarfi og hvaða afleiðingar það hefur haft þar, því að stóra einstaka málið er að alveg sama hvað okkur finnst um þessa hluti er þetta alltaf það sama: Þetta veltur á okkur. Efnahagsleg framtíð okkar veltur á okkur Íslendingum og við þurfum að vera hér með aga og ráðdeild og viðskiptafrelsi. (Forseti hringir.) Það eru þessir þrír þættir og allar þjóðir sem menn líta til sem hafa náð árangri hafa sýnt aga og ráðdeild. Byrjum á því.