143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér á Alþingi er umræða um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Betra er seint en aldrei að það skuli koma fram. Gagnrýna má hversu seint það kemur vegna þess að mér sýnist að miðað við frumvarpið liggi fyrir töluvert mikil vinna hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis við að fara yfir þetta frumvarp og skýra ýmsa óljósa þætti sem sannarlega eru þar inni, m.a. til að gera löggjöfina skýrari þannig að hún standist örugglega stjórnarskrá. Það má ekki samþykkja lög sem þarf svo að túlka og nýta heimild um skipun kærunefndar, sem verður hægt að kæra til úrskurði frá ríkisskattstjóra, og að allt logi í málaferlum þar á eftir vegna þess hvernig á að túlka þau miklu áform sem hér eru sett fram.

Þetta vildi ég segja í byrjun, virðulegi forseti, og vona að efnahags- og viðskiptanefnd geti unnið þetta hratt og vel vegna þess að þetta er mjög flókið frumvarp. Greinarnar eru mjög langar, t.d. 11. gr., margir málsliðir og margar málsgreinar sem þarf að útskýra betur. Ég hef óskað eftir því að hæstv. fjármálaráðherra taki við spurningum frá mér við þessa ræðu og vona að hann bregðist við og svari þeim á eftir.

Við 1. umr. í málinu þar sem menn skýra sjónarmið vildi ég geta sagt í ræðustól Alþingis að ráðherrann hefði flutt málið og skýrt það sem í því væri, þingmenn spurt og fengið svör en því miður er lítið um svörin. Því miður er líka lítið um þátttöku stjórnarsinna um þetta frumvarp þannig að hægt sé að kafa betur ofan í það og fá svörin. Ég vildi að ég gæti sagt að ég styddi þetta frumvarp.

Hv. þm. Pétur Blöndal bendir mér á að hann hafi talað. Ég hlustaði á þá ræðu, hún var ágæt, þar sem hann lýsti yfir andstöðu við þetta frumvarp ásamt öðrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem það hefur gert. Kem ég þá að því að segja: Ég get því miður ekki lýst yfir stuðningi við þetta frumvarp eins og það er hér og nú, en ég lýsi heldur ekki yfir andstöðu vegna þess sem ég sagði áðan um hina miklu vinnu sem er fram undan.

Virðulegi forseti. Það að lagfæra forsendubrest í verðtryggðum lánum á Íslandi hefur staðið yfir lengi. Ég sat í þeirri ríkisstjórn sem sat á Íslandi þegar hrunið varð. Ég minnist ríkisstjórnarfunda þar sem var verið að ræða þessi mál, í þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, og ég man eftir því þegar Seðlabankinn var fenginn til að taka saman yfirlit yfir skuldir heimilanna og hvaða viðfangsefni ætti að fást við, hverjar stærðartölurnar væru o.s.frv. Við fengum leyfi frá Persónuvernd til að láta vinna þessi gögn og tveir, þrír fundir voru haldnir í Ráðherrabústaðnum þar sem mjög góður fulltrúi úr Seðlabankanum skýrði þetta. Þeir áttu eftir nokkra fundi í viðbót, m.a. til að taka bílalánin inn. Þetta var á fyrstu mánuðum hrunsins, virðulegi forseti. Heimildin var stutt, gögnunum varð síðan að eyða, því miður, og það er kannski þess vegna sem við höfum þurft að fara þá leið að fela ríkisskattstjóra þennan hagstofugrunn, sem ég er mjög sammála og held að sé langbesta leiðin. Við erum í vandræðum með að ræða hinar tölulegu staðreyndir, m.a. skuldirnar, hvað eru stökkbreytt lán, hver var forsendubresturinn o.s.frv. Það er galli í hagtölum okkar hér og hagstjórn að þetta skuli ekki vera allt saman til á einum stað þar sem menn geti flett þessu upp eftir skattskil fólks í landinu í hvert og eitt sinn. Þetta er líka þekkt í öðru sem ég ætla ekki að eyða tíma mínum í hérna en upp í hugann kemur álagning veiðigjalda sem er unnin úr gömlum gögnum.

Þess vegna ætla ég að leggja fyrstu spurningarnar fyrir hæstv. fjármálaráðherra um það sem gerðist í aðdraganda hrunsins á bönkunum þar sem var verið að taka, má kalla, öll lán viðkomandi einstaklinga í viðkomandi stofnun sem gátu að sjálfsögðu verið íbúðalán en það gátu verið skuldir vegna bíla-, sumarbústaða-, hjólhýsa- eða fellihýsakaupa eða hvað þetta allt saman heitir. Það er þekkt að í bankakerfinu voru allar þessar skuldir teknar á þessum aðdragandaárum þar sem veðhæfni jókst vegna hækkandi íbúðaverðs og peningamagn í umferð var sem aldrei fyrr. Þá var þessu skuldbreytt og sett í eitt lán og jafnvel bara á fyrsta eða annan veðrétt viðkomandi húseignar.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er þessi: Eru einhver áform uppi um að aðskilja lán sem voru á árunum á undan sem voru ekki tengd íbúðarhúsnæði, eins og á að leiðrétta, og minnka þar með kannski þá skuldatölu sem kemur til leiðréttingar hjá viðkomandi einstaklingum? Ég hef litið á hin frábæru gögn ríkisskattstjóra, öll rafræn, í skattskýrslum og veit að þetta er hægt að sjá aftur í tímann. Eru uppi áform um það?

Af því að fjármálaráðherra situr í salnum er ég með aðra spurningu. Undirbúningsvinnan hefur falið í sér mikla gagnasöfnun og góða vinnu sem, eins og ég sagði áðan, hefði ekkert átt að þurfa að vinna endilega núna heldur fara í talnagrunn og ýta á enter og fá það fram. Hefur í allri þessari vinnu verið skoðað hvernig skuldaleiðrétting skiptist milli landshluta, eftir kjördæmum? Ég segi fyrir mitt leyti sem landsbyggðarmaður að forsendubrestur hjá íbúum á landsbyggðinni er miklu eldri en á þeim tíma sem tekinn er hér. Hann er hins vegar óbættur. Ég þekki það sjálfur sem íbúðareigandi á Siglufirði, ég veit alveg á hvað ég keypti húsið mitt þá og veit á hvað ég seldi það. Forsendubresturinn var mjög mikill þá en lánin hjá mér lækkuðu ekkert, þvert á móti hækkuðu þau við þær aðgerðir sem gripið var til á Alþingi, t.d. með alkunnri hækkun bensíngjalda og ýmissa skatta sem höfðu áhrif á vísitölu neysluverðs.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra enn eins. Hér koma þingmenn stjórnarflokkanna hver á fætur öðrum, sérstaklega fulltrúar Framsóknarflokksins, og lýsa því yfir að þessi tvö frumvörp séu bara tvö af tíu. Stærsta og mikilvægasta atriðið til að fá svar við finnst mér — ég reyndi að spyrja hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um það áðan en fékk ekkert svar — vera um afnám verðtryggingar á eldri lánum sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað að sé að koma. Skýrsla hefur verið skrifuð um það í starfshópi á vegum forsætisráðherra sem ég skil ekki öðruvísi en svo að þetta sé algjör forsenda. Eins og ég sagði áðan lagði ég þessa spurningu fyrir hv. þingmann áðan. Það hefur verið reiknað út hjá aðilum sem þekkja öll sín mál og fá þessi gögn að þeir sem eru með 20–25 millj. kr. skuld fá á bilinu 2,3–2,5 milljónir í afslátt. Viðkomandi greiðir það inn á lánið sem betur fer en það er 3–4% verðbólga og sumir segja að þessar aðgerðir auki verðbólguna um 1 prósentustig á ári. Ég spyr: Hvað tekur það langan tíma fyrir verðbólguna að éta þetta upp þannig að viðkomandi skuldari, húseigandi, sem á að fá þessa leiðréttingu standi í nákvæmlega sömu sporum?

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er: Hefur þetta verið reiknað út? Sá eldklári aðili sem hefur reiknað þetta út og sýnt mér telur að það taki innan við þrjú ár, þá verði skuldin komin í sama horf.

Þetta eru þær spurningar sem ég vildi leggja fyrir hæstv. ráðherra. Ég vænti þess að þeim verði svarað hér á eftir.

Vafalaust mætti setja margar fleiri spurningar hér fram. Ég ætla ekki að taka þátt í að karpa um hver sagði hvað fyrir kosningar og hvernig menn ætla að gera það. Ég hef margoft fjallað um þær upphæðir sem notaðar voru á síðasta kjörtímabili til að koma til móts við forsendubrest og þá sem áttu í mestu erfiðleikunum í landinu eftir banka- og efnahagshrunið 2008. Mér telst til og fæ það af vef velferðarráðuneytisins að það séu tæpir 100 milljarðar kr., þ.e. 38 milljörðum meira en á að veita í skuldaleiðréttinguna af þeim 80 milljörðum mínus 8 sem þar eiga að koma inn. Það var gert á síðasta kjörtímabili. Ég þekki það vegna þess að ég hef aðstoðað aðila við umsókn til umboðsmanns skuldara. Það má segja að það sé þegar allt kemur til alls mjög góð leið sem ég sé að hefur verið farin og verður farin í því tilviki sem ég þekki best til. Ferillinn er samt mjög flókinn og erfiður og ég er ekkert viss um að allir hafi haft aðstöðu til að fylgja því eftir og koma því í lögbundinn farveg hjá umboðsmanni skuldara. En það hefur komið fram, virðulegi forseti, að miðað við 110%-leiðina hafa menn fengið mikla skuldalækkun.

Síðan kem ég í lokin að loforðunum sem gefin voru fyrir kosningar. Að minnsta kosti annar ríkisstjórnarflokkurinn hikaði ekki við að halda þeim fram og var kosinn út á þau. Það voru loforð formanns Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni sem má lesa út úr ákveðnum svörum í ákveðnum þáttum og ákveðnum netmiðlum að hafi átt að vera 300 milljarðar kr. Það var sagt þegar þingsályktunartillagan var flutt á sumarþinginu eftir að ríkisstjórnin var mynduð að í vændum væri heimsmet í skuldaleiðréttingu hjá landsmönnum.

Virðulegi forseti. Þetta eru svikin loforð og það er ljótt, alveg sama hverjir það eru, að skrökva að kjósendum og standa ekki við málið. Þetta er að mér finnst mesti ljóðurinn á þessu vegna þess að þeir 72 eða 80 milljarðar sem þarna eru settir inn — og þingmenn og virðulegi forseti taka eftir því að ég ræði þetta út frá þessu frumvarpi — eru lægri upphæð en veitt var á síðustu árum í þeim aðgerðum sem þar voru taldar upp, 110%-leiðin, sértæk aðgerð í gegnum Íbúðalánasjóð, vaxtabætur og sérstakar vaxtabætur.

Þannig vil ég horfa með jákvæðum augum á það sem ég sé í þessu frumvarpi ásamt því að halda því fram sem gert var á síðasta kjörtímabili en er líka gagnrýninn á vankantana við það sem bæði var gert þá og gert er núna. Ég er til dæmis mjög hrifinn af þeirri leið sem hér er boðuð, að viðkomandi skuldaleiðrétting gangi inn á lánið en sé ekki greidd út. Það má segja að það hafi verið gallinn við sérstakar vaxtabætur á síðasta kjörtímabili að leggjast ekki við höfuðstól lánanna og lækka þar með greiðslubyrðina strax í stað þess að freistast til þess að nota þá peninga sem áttu að vera til að lækka íbúðarskuldir í annað. Vafalaust hafa margir gert það, en það er líka jafn gefið að ekki gerðu það allir.

Virðulegi forseti. Svo kem ég í lokin að því sem er forsenda fyrir þessu öllu sem er sú ákvörðun á Alþingi við gerð fjárlaga að leggja sérstakan bankaskatt á þrotabú bankanna upp á 20 milljarða á ári næstu fjögur ár. Ég ætla rétt að vona að í október, nóvember þegar þessari álagningu lýkur og verður orðin raunveruleg, hún er bara sem samþykkt Alþingis í dag og er ekki orðin raunveruleg vegna þess að það er ekki búið að leggja á lögaðila, verði hún lögleg og það verði girt fyrir allt í þeim efnum sem hugsanlega her lögfræðinga fyrir hönd þrotabúa bankanna mun fara fram með í málsókn á ríkið ef það verður.

Þetta vildi ég segja við 1. umr. um frumvarpið. Það mætti segja margt fleira um það en tími gefst ekki til þar sem einungis 15 mínútur eru ætlaðar fyrir hvern þingmann við 1. umr. Ég tek fram að þetta er 1. umr. en hún er notuð til að reifa mál og ég sakna þess mjög að ekki skuli fleiri fulltrúar frá stjórnarliðinu taka til máls. Við hefðum þá getað spurt þá meira út úr. En ég vona sannarlega og ítreka (Forseti hringir.) það sem ég sagði áðan að vinnan í nefndinni gangi vel og þar verði (Forseti hringir.) leyst úr flækjum og spurningum og þetta (Forseti hringir.) frumvarp komi svo til 2. umr. sem ég hygg að verði þá allítarleg.