143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:58]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að byrja á að þakka mjög upplýsandi umræður í þingsal, bæði í gær og í dag. Ég er að öðlast dýpri skilning á þessu stóra og mikla máli. Eftir því sem ég hlusta meira verða áhyggjurnar innra með mér meiri og sterkari. Ég hef sérstaklega áhyggjur af því að vextir muni hækka og verðbólga aukast við þessa skuldaniðurfellingu.

Í kjölfarið langar mig að segja, af því að hér er verið að ræða hið stóra og mikla orð forsendubrest, að ég er hluti af þeim hóp samfélagsins sem varð hvað verst úti, mætti segja, í hruninu. Maður er að koma sér upp heimili og mennta sig og vinna að atvinnuframa sínum og í leiðinni náttúrlega líka að eignast börn, við erum kjarnakonur, íslenskar konur, við gerum allt í einu. Greiðslubyrðin er há á hverju heimili, það er húsnæði, það er bíll og það eru leikskólagjöld og frístundaheimili og matur í skólanum og annað. Eftir hrunið, og meira að segja fyrir hrun, verð ég að segja eins og er að ég upplifi forsendubrest um hver einustu mánaðamót þegar ég sé lánið mitt hækka og hækka og hækka og greiðslubyrðina á láninu mínu hækka og hækka. Þetta er eitthvað sem ég hef upplifað síðan ég keypti mína fyrstu íbúð 22 ára gömul, forsendubrest um hver einustu mánaðamót, sem er náttúrlega til kominn út af verðtryggingu og verðbólgu og of háum vöxtum, af því að ég bý á Íslandi.

Það að hérna hafi orðið efnahagslegt áfall og eitthvað hafi rokið upp og annað, jú, það varð forsendubrestur en ég held að margir upplifi vonbrigði um hver einustu mánaðamót. En það var smávon í þessu öllu saman af því að maður sá að það átti að fara í sameiginlegt átak og nú um áramótin tóku mörg fyrirtæki og flest sveitarfélög landinu, ef ekki öll, höndum saman við að reyna að halda niðri verðbólgu, sem náttúrlega laumast í húsnæðislánin okkar, og fóru ekki í neinar gjaldskrárhækkanir. Það var vel gert en það var ekki auðvelt og það get ég líka sagt sem bæjarfulltrúi. Það þurfti að bíta á jaxlinn þegar var verið að móta og mynda fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir árið 2014 og engar hækkanir, engar vísitöluhækkanir, ekkert. Það er erfitt, alveg eins og það er erfitt að reka heimili.

Auðvitað er maður þá hræddur um að öll vinnan verði fyrir bí, öll sú vinna sem farið var í og öll sú þjónusta sem alla vega bæjarfulltrúa sveitarfélaga langaði að fara í, að bæta og gera betur en urðu að draga til baka í ljósi þess að markmiðið var að halda niðri verðbólgu. Ég hef heyrt úr þessum ræðustól að það séu ekki sterkar líkur heldur 100% líkur á því að sú vá í íslensku samfélagi fari af stað og það er miður.

Ég geri mér alveg fullkomlega grein fyrir því að það eru eflaust margir sem halda að ég hafi eingöngu áhuga á rusli, en ég hef líka alveg stórkostlegan áhuga á sveitarfélögum. Ég ætla ekki að fara að tjá mig mikið um í inntakið í þessu frumvarpi. Þetta er stórt og mikið frumvarp og það er ágætlega vel skrifað þótt ég telji mig þurfa að setjast niður með hagfræðingi eða viðskiptafræðingi til að fá betri útskýringar. Það verður kannski gaman að sjá hvað kemur út úr þeirri reiknivél sem er búið að lofa.

Ég hef áhuga á rekstri sveitarfélaga og mér brá virkilega í brún þegar ég las frétt um að fjármálastjórar Reykjavíkurborgar væru búnir að reikna sig niður á það að tekjutap þeirra í framtíðinni út af þessu frumvarpi væri 7 milljarðar, 7 þúsund milljónir. Sjö þúsund milljónir eða 7 milljarðar, fyrir þann pening er til dæmis hægt að byggja um 20 fimm deilda leikskóla. Fyrir þann pening er hægt að byggja fjóra grunnskóla, vel í lagt, með íþróttahúsi. Ég spurði fjármálastjóra Hafnarfjarðarbæjar hins sama og það er búið að reikna út að í því sveitarfélagi, sem er þriðja stærsta sveitarfélag landsins, erum við að tala um 700 milljónir á fjórum árum. Það eru tveir stórir og góðir leikskólar. Það er margt hægt að gera fyrir 700 milljónir. Það er hægt að bæta nærþjónustu, það er hægt að lækka leikskólagjöld, halda niðri fasteignagjöldum, jafnvel lækka útsvar, það er hægt að byggja grunnskóla. Það er hægt að gera ýmislegt. Það er hægt að bæta þjónustu við fatlaða, eldri borgara og alla þá miklu og sterku nærþjónustu sem sveitarfélögin veita. Sveitarfélögin munu verða fyrir gríðarlegu tekjutapi.

Ég veit að ég á eftir að fá í andsvörum: Þetta er skattafsláttur sem sveitarfélögin fengu í tekjugrunn sinn í kjölfarið af því að lögum var breytt hérna eftir hrun. En málið er að samkvæmt lögum sem ríkisvaldið setur sveitarfélögunum gera þau á hverju einasta þriggja ára áætlanir, gera framtíðaráætlanir til þess að halda sig við ákveðið plan. Þessi stofnun setti sveitarfélögum fyrir ákveðin verkefni og þau sem voru yfir 150% skuldahlutfalli þurftu að gera tíu ára áætlun og sýna fram á að þau mundu komast niður fyrir það hlutfall á tímabilinu. Þessar áætlanir eru ekki sætt excel-skjal með einhverju viðmiði, þetta eru alvöruáætlanir sem þurfa að standast, sem miðað er við og haft eftirlit með.

Því finnst mér skrýtið að oft virðist það vera þannig að ákvörðunarvaldið hér geti fært og tekið eftir því sem hentar. Mér finnst það slæmt af því að þetta er bein þjónusta, þetta er nærþjónusta, þetta er velferðarþjónustan eins og hún gerist best. Síðast en ekki síst eru líka tækifæri þarna til að minnka álögur á íbúa og þar gengur jafnt yfir alla, mundi ég halda.

Ég sé hvergi mótvægisaðgerðir í þessu frumvarpi nema í fylgiskjali fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Til að treysta stöðu ríkissjóðs við fjármögnun leiðréttingarlána og hliðaráhrifa aðgerðarinnar á ríkisfjármálin, svo sem aukið framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, mótframlag launagreiðanda vegna aukinnar þátttöku starfsmanna ríkisins í séreignarlífeyrissparnaði, framlög til að bæta Íbúðalánasjóði tapaðan vaxtamun ...“

Hér er eingöngu verið að tala um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og það er mjög misjafnt hvað sveitarfélög fá úr þeim potti. Það fer í raun eftir því hvernig þjónustan er, hvort þau eru með hátt barngildi eða hátt gildi fatlaðra einstaklinga og annað slíkt.

Síðan er einnig sagt í fylgiskjalinu á bls. 33 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Einnig má gera ráð fyrir að lögfesting frumvarps um skattfrelsi lífeyrisiðgjalda muni hafa nokkur áhrif á fjárhag sveitarfélaga og um þau er fjallað í athugasemdum frumvarpsins.“

Ef miðað er við til dæmis Reykjavíkurborg þar sem fjármálastjórar hafa reiknað út að þeir muni verða af 7 milljörðum og ef Reykjavíkurborg er 1/3 af íbúum landsins er þetta tekjumissir upp á 21 milljarð fyrir íbúa þessa lands. Ég vil fá að segja það beint út.

Ég vil fá að spyrja, af því að ég sé að hér eru aðilar úr efnahags- og viðskiptanefnd sem mun fjalla um þetta frumvarp: Á þetta bara að vera svona eða á að koma með einhverja mótvægisaðgerð?

Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir minntist á barnafjölskyldur. Í því samhengi vil ég minnast þess að það eru barnafjölskyldur sem eru í mesta greiðsluvandanum. Það eru þær fjölskyldur sem reiða sig hvað mest á þjónustu sveitarfélaga. Sveitarfélögin veita þjónustu sem er haldreipi þeirra til að öðlast gott líf og lífsgæði. Það eru leikskólar, það eru grunnskólar og hvað annað sem þær kalla eftir. Þetta eru grunnstoðir þeirra í samfélaginu.

Ég heyrði hv. þm. Frosta Sigurjónsson tala um að hér væri eingöngu skuldavandi og þá vil ég minnast að það var skilgreint af efnahags- og viðskiptanefnd, að ég tel, að þau sveitarfélög sem væru mjög skuldug en gætu vel staðið undir afborgunum af lánum sínum væru ekki í skuldavanda. En svo er hægt að snúa þessu algjörlega við þegar hentar. Ég vil minna á að það voru ekki bara heimili landsins sem urðu fyrir forsendubresti á þessu ákveðna tímabili. Ég verð fyrir forsendubresti um hver einustu mánaðamót og sveitarfélögin urðu líka fyrir stórkostlegum forsendubresti. Eftir því sem ég best veit hefur bara eitt þeirra rétt úr kútnum.

Ekki það að sveitarfélögin hafa verið að biðja um það, því að það eru yfirleitt þau sveitarfélög sem vel geta staðið undir sínum skuldum og greitt af þeim. Mér finnst því mjög skrýtið að heyra að hér sé verið að leiðrétta skuldavanda en ekki greiðsluvanda. Það hlýtur að segja sig sjálft að vandinn er að geta ekki greitt af skuldum sínum. Þegar fólk getur ekki greitt af lánunum sínum er það í vondum málum. Ég skil ekki hver vandinn er. Ég vil gjarnan fá dýpri umræðu um það og útskýringar af því að ég lít ekki á það sem vanda ef fólk skuldar en getur vel greitt af lánum sínum, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða sveitarfélög.

Ég kalla eftir tvennu: Betri skilgreiningu á muninum á skuldavanda og greiðsluvanda og ég vil svo sannarlega fá að heyra hvort það eigi að koma til móts við tekjumissi sveitarfélaga í þessu stóra og mikla máli.