143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er nokkuð um liðið síðan hér var óskað eftir nærveru hæstv. forsætisráðherra og virðulegur forseti lét þess þá getið að forsætisráðherra hefði verið gert viðvart um að hans væri óskað við umræðuna. Við höfum ekki fengið neinar fréttir af viðbrögðum hæstv. forsætisráðherra við þeirri ósk, sem er fullkomlega eðlileg þegar um er að ræða stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins. Þessi umræða hefur ekki verið í hálftíma, hún hefur ekki verið í klukkutíma, hún hefur verið í tvo heila daga og tvö heil kvöld.

Forsætisráðherra hefur komið hér fram með hvert heimsmetið á fætur öðru. Eitt var heimsmetið í spéhræðslu á dögunum þegar hann vildi ekki að mælt væri fyrir þessu máli 1. apríl, en þetta heimsmet í kjarkleysi sem hér endurspeglast verður líka í minnum haft. Og ég geri kröfu um það, virðulegi forseti, að gert verði hlé á þingfundi og forsætisráðherra verði beðinn um það mjög eindregið að láta sjá sig í þingsal og (Forseti hringir.) sýna þinginu þá virðingu.