143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mengun frá Hellisheiðarvirkjun.

[10:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. fyrirspyrjanda varðandi þau mörk sem hafa verið sett hér á landi, fyrst og fremst útblástur frá virkjununum á Hellisheiði hafa nálgast þau í þó nokkrum tilfellum. Það er líka rétt sem kom fram hjá fyrirspyrjanda að nokkuð óljóst er hver áhrifin eru. Þau eru óneitanlega talsverð á fólk sem til að mynda á við astma að stríða. Ef menn skoða þau mörk sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er með eru þau þrisvar sinnum hærri en þau mörk sem hafa verið sett á Íslandi. Það eru til bæði lægri mörk og hærri mörk hjá löndum og þjóðum, hvort sem þau eru með mikil jarðhitaverkefni í sínum löndum eður ei. Það eru talsvert mismunandi forsendur sem menn gefa sér, hvort áhrifin eru sviði í augum eða í öndunarfærum eða eitthvað annað.

Það er einnig rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að Orkuveitan hefur óskað eftir undanþágu vegna þess að verkefni sem þeir hafa unnið að í mjög langan tíma og er mjög spennandi verkefni, að dæla niður hluta af þessum efnum, er nýlega farið í gang. Verklagið í ráðuneytinu hefur verið að senda þær undanþágubeiðnir til umsagnar, til heilbrigðiseftirlitssvæða, Umhverfisstofnunar og annarra sem hafa getað tjáð sig um málið. Málið er einfaldlega í vinnslu í ráðuneytinu og það skýrist vonandi mjög fljótlega hvað verður af því. En menn horfa auðvitað mjög mikið til þessa verkefnis sem Orkuveitan hefur staðið að og er mjög spennandi vísindalegt verkefni, að geta dælt aftur niður í jörðina hluta af þeim efnum sem koma upp.