143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[12:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem nú liggur fyrir, rannsóknarskýrsla Alþingis um fall sparisjóðanna, virðist að mörgu leyti vandað og gott plagg þó að fyrir liggi að við eigum auðvitað eftir að lesa hana nánar og kafa mun dýpra í hana en okkur hefur gefist tækifæri til á þeim örstutta tíma sem liðinn er síðan skýrslan var kynnt.

Áhugavert er að skoða stóru línurnar, það er það sem maður getur einna helst gert þegar maður nær bara að skauta yfir skýrsluna. Hið sögulega yfirlit sem er birt í skýrslunni er áhugavert, saga sparisjóðanna. Fyrsti sparisjóðurinn var stofnaður í Þýskalandi á 18. öld. Hugmyndafræðin var sú að hinir efnaminni í samfélaginu ættu líka að eiga kost á lánsfé, ekki aðeins þeir sem væru í sæmilegum efnum. Þar eru mótuð þau gildi sem hafa einkennt sparisjóðaformið síðan, þ.e. að sparisjóðir eigi að hafa fleiri markmið en hámörkun hagnaðar þar sem það aðskilji þá frá viðskiptabönkum fyrir utan hið svæðisbundna hlutverk að sinna tilteknu svæði, stuðla að efnahagslegri og samfélagslegri velferð á tilteknu svæði, og oft starfa sparisjóðir síðan saman og mynda sameiginlegt net.

Þetta var grunnurinn að hugmyndafræðinni á bak við stofnun sparisjóða. Þessi hugmyndafræði berst til Íslands á 19. öld. Fyrstu sparisjóðirnir eru stofnaðir víða um land um miðja 19. öld með það að markmiði að efla atvinnulíf og samfélag. Þetta er áhugaverð saga og mjög dramatísk. Svo má segja að blómatími sparisjóðanna verði á tímabilinu 1985–1995 þegar þeir ná allt að 25% útlánahlutdeild, fá mikla velvild úti í samfélaginu og eru ítrekað valdir bestu þjónustustofnanir á fjármálamarkaði.

Síðan snerist gæfuhjólið. Lagaumhverfi sparisjóðanna á Íslandi breyttist mjög á 10. áratugnum í kjölfar þess að Ísland varð aðili að EES-samningnum, frjáls för fjármagns er þar undirstöðuatriði, Basel-reglur o.fl. Árið 2001 var svo sparisjóðunum veitt lagaheimild til hlutafélagavæðingar. Sú heimild var raunar gagnrýnd, m.a. af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hún var líka gagnrýnd innan sparisjóðakerfisins. Reynslan af hlutafélagavæðingunni í Danmörku sem var tíu árum á undan okkur með þetta var sú að sparisjóðirnir hurfu inn í viðskiptabankana. Af þeim sökum voru ýmsir innan sparisjóðakerfisins gagnrýnir á þessa breytingu á sínum tíma.

Það má segja að þegar sparisjóðir fara að breyta sér í hlutafélög glati þeir sérkennum sínum gagnvart viðskiptabönkum, jafnvel sameinist þeim. Þeir fóru í fjárfestingarstarfsemi en ráku áfram sína góðu viðskiptabankaþjónustu sem var samt tiltölulega dýr.

Margir punktar eru nefndir í þessari skýrslu og það væri óðs manns æði að ætla að fara yfir þá hér. Stóru skýringarnar sem eru dregnar upp um það hvernig fór voru útlánatap og virðisrýrnun fjárfestinganna. Mikilvægasti einstaki þátturinn í erfiðleikum sparisjóðanna, sem er nefndur í skýrslunni, var lán til fasteigna- og byggingaverkefna og lán til kaupa á óskráðum hlutabréfum og stofnfjárbréfum. Sparisjóðirnir upplifðu það að þegar búið var að lána til verkefna í nærsamfélaginu má segja að það hafi verið mjög takmarkandi þegar þeir báru sig saman við viðskiptabankana í miklu stærri sundlaug og þá var farið að fjárfesta og lána út til verkefna fyrir utan nærsamfélagið. Samkvæmt skýrslunni virðist það hafa verið ógæfuspor. Þá var til að mynda Sp-ráðgjöf, sameiginleg ráðgjöf sparisjóðanna, mjög mikilvægur þáttur í því að finna verkefni fyrir ný útlán og þar með skiptir þekkingin á nærsamfélaginu engu. Þarna er bara farið að lána til einhverra verkefna. Það sem meira að segja kemur fram er að sparisjóðirnir sóttu lánsfjármagn á markað án þess að menn vissu eiginlega í hvað þeir ætluðu að nota það, í hvaða verkefni þeir ætluðu að lána.

Í stað þess að vera með það gamla markmið að sparisjóðir hefðu fleiri markmið en hámörkun hagnaðar virðist sem sparisjóðirnir hafi farið inn í nákvæmlega sama far og viðskiptabankarnir, að horfa til þess hvernig væri hægt að stækka efnahagsreikninginn, græða meira og greiða meiri arð. Sú saga er rakin ágætlega í rannsóknarskýrslunni um fall viðskiptabankanna og aðdraganda þess.

Erlend lántaka óx sífellt. Minni sparisjóðir fjármögnuðu sig hins vegar að mestu leyti með innlánum en þau höfðu sífellt minna vægi í stærri sparisjóðum. Þetta er þróun sem hangir öll saman.

Sú mikla aukning stofnfjár sem varð á árunum 2005–2007 virðist ekki síst hafa stjórnast af hagsmunum einstakra stofnfjáreigenda. Á þeim árum var stofnfé sparisjóðanna aukið um 57 milljarða. Stofnfjáreigendur fengu meira en helming þeirrar fjárhæðar greiddan út sem arð innan við ári eftir að þeir lögðu fram stofnféð. Auðvitað voru líka aðrar ástæður, eins og að verjast yfirtöku eða hækka hlutfall stofnfjár af eigin fé. Eigi að síður sýnir þessi aðdragandi allur hvernig sparisjóðirnir soguðust niður í sama hyl og viðskiptabankarnir. Fallið var hátt því að eignir í lok árs 2007 voru metnar á 668 milljarða en í lok árs 2008 59 milljarðar.

Tapið hélt svo áfram.

Það sést líka að minni sparisjóðir hafa haldið betur sjó en þeir stærri. Á móti kemur eins og hér hefur verið bent á, bæði í skýrslunni og af hæstv. ráðherra, að minni sparisjóðir eiga erfitt með að uppfylla öll þau skilyrði sem eru sett í lögum og regluverki um fjármálafyrirtæki.

Ýmsar lagabreytingar voru gerðar eftir hrun, til að mynda bann við lánum fjármálafyrirtækja eða dótturfélaga gegn veðum í eigin bréfum, hlutabréfum eða stofnfjárbréfum, og þannig komið í veg fyrir að fjármálafyrirtæki gætu stækkað efnahagsreikninginn án þess að nýtt fé kæmi inn og gerðar kröfur um eiginfjárhlutfall, auknar eftirlitskröfur og margt fleira. Áhyggjur manna eru að þær stofnanir sem enn eru til undir merki sparisjóðanna séu of litlar og of fámennar til að standa undir nafni sem fjármálafyrirtæki.

Ég velti fyrir mér eftir að hafa farið yfir þessa stóru mynd, sem er alveg kunnugleg, hvort þetta kalli ekki á að við veltum dálítið fyrir okkur kerfinu sjálfu. Ég held að það sé tvímælalaust eftirspurn eftir því að eiga viðskipti við fjármálafyrirtæki sem hafa eitthvað annað að leiðarljósi en að hámarka hagnað sinn.

Það er áhugavert að skoða það að í skýrslunni er bent á að sparisjóðir í Þýskalandi hafi gengið ágætlega. Skýrsluhöfundar bentu raunar á að þar væri um mun stærri einingar að ræða en á Íslandi en það er líka áhugavert að sjá að margir af þýsku sparisjóðunum hafa tekið höndum saman við þá hreyfingu sem snýst um það sem má kalla siðlega bankastarfsemi, bankastarfsemi sem byggir að einhverju leyti á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, byggir á gagnsæi þannig að ef maður á í viðskiptum við þann banka veit maður til hvaða starfsemi sá banki lánar. Þetta eru fjármálafyrirtæki sem skuldbinda sig til að lána ekki til vopnaframleiðslu, svo dæmi sé tekið, setja sér reglur sem öllum eru ljósar og byggja þær á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, þ.e. efnahagslegri, samfélagslegri og umhverfislegri velferð.

Þegar ég las um þessi upphaflegu markmið sparisjóðanna velti ég fyrir mér að þau ættu vel við í dag þrátt fyrir að þau séu ansi gömul, frá 18. öld, ef við horfum til þess hvernig heimurinn hefur breyst. Fólk segir: Ja, við getum ekki haft þessa sparisjóði, þeir eru bara eitthvert 19. aldar fyrirbæri og við erum komin annað, við erum komin inn á 21. öldina. Já, einmitt, við erum komin annað og skulum þróa þessa hugmyndafræði áfram í takt við það. Tökum inn í þá hugmyndafræði sem við sjáum hjá þessum siðlegu bankafyrirtækjum og horfum á það hvernig þær stofnanir hafa fótað sig því að þær virðist hafa fótað sig alveg hreint ágætlega.

Ég nefndi sparisjóðina í Þýskalandi. Þar er að vísu aðeins önnur viðskiptamenning og fjölskyldufyrirtækin eru þar enn miklu meiri grunnstoðir í viðskiptalífi en víða annars staðar í Evrópu. Við höfum líka góð dæmi af Norðurlöndum. Þrír norrænir bankar hlutu umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2010 sem allir eru hluti af hreyfingunni um siðlega bankastarfsemi. Krafa fólks um slíka bankastarfsemi hefur vaxið eftir hrun. Þetta er fyrst og fremst viðskiptabankastarfsemi, en ég tel að við ættum að skoða þetta á Íslandi fremur en að festa okkur í því að sparisjóðirnir séu barn sinnar kynslóðar. Þeir eru það en veltum samt fyrir okkur hvernig markmiðunum verður náð.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, sparisjóðirnir urðu til út frá frumkvæði einstaklinga, heimamanna í héraði sem sögðust vilja tryggja að fólkið á svæðinu gæti fengið ákveðna fjármálaþjónustu, fengið aðgang að lánsfjármagni. Til þess að viðhalda slíku kerfi og þróa það áfram þarf frumkvæði einstaklinga og almennings en ég hef líka trú á því að stjórnvöld geti þar lagt lóð á vogarskálar með því að skoða hvernig við getum sniðið lagaumhverfið til þannig að það hvetji til slíkrar starfsemi. Það þarf ef til vill að skoða skilgreininguna á því hvort til séu fjármálafyrirtæki í ólíkum geirum og að fjármálafyrirtæki sem ekki fáist til að mynda við fjárfestingarstarfsemi séu undir minni eftirlitsreglum að einhverju leyti en önnur, að það séu einhverjir slíkir hvatar sem er hægt að skoða. Við gætum gefið tækifæri innan lagarammans fyrir þá einstaklinga sem vilja sýna slíkt frumkvæði til að hreinlega sé hægt að stofna slík fyrirtæki.

Það var líka áhugavert að hlusta á nefndarmenn sem sögðu að það hefði verið uppljómun að skynja þetta samfélagslega hlutverk sparisjóðanna. Það segir kannski sitt um það að það hafi týnst í umræðunni á undanförnum árum og áratugum.

Ég tel að það sé eftirspurn eftir breyttri bankastarfsemi. Við sjáum það á viðhorfum almennings í landinu þegar kemur að því að skoða viðhorf til fjármálastarfsemi og bankastarfsemi. Ég tel að í þessu módeli siðlegrar bankastarfsemi séu tvímælalaust tækifæri og að við getum lært eitthvað af svona skýrslu því að til þess er hún gerð. Hún er gerð til þess að við getum lært eitthvað af henni. Það er hægt að læra sitthvað um það hvernig við setjum lög og reglur og það er hægt að læra mjög margt af því hvernig umræðan fór fram á Alþingi þegar hlutafélagavæðingin var samþykkt.

Við þurfum að læra af fortíðinni hvernig við setjum lög og reglur, það er til þess að átta okkur á því hvað ræður því síðan. Auðvitað fyllist maður svartsýni þegar manni sýnist að græðgin hafi ráðið allt of miklu og geri enn. Sumir gætu gerst bölsýnismenn og sagt að það væri eðlilegt og þannig mundi það alltaf enda, græðgin mundi ráða of miklu í þessu. Við getum líka velt fyrir okkur hvort ekki séu einhverjir aðrir faktorar. Það er ekkert óeðlilegt við það að hafa arð af bankastarfsemi en þegar arðurinn verður til þess að öll upprunaleg markmið bankastarfseminnar eru löngu horfin og gleymd fer maður að spyrja sig. Það er ekkert óeðlilegt við arð fyrr en við getum sagt að sú krafa verði óhófleg á kostnað annarra og þá getum við farið að tala um græðgi. Það getum við lært af þessari skýrslu að þarna hefur sú krafa orðið óhófleg á kostnað annarra þátta. Þarna hefur græðgin ráðið för. Ég tel ekki að það sé eitthvert náttúrulögmál.

Ef við viljum gera eitthvað með þessa skýrslu er mikilvægt að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki til skoðunar þann lærdóm sem við getum dregið af henni um fortíðina. Mér finnst hins vegar mikilvægt fyrir okkur sem þingmenn að velta fyrir okkur hvað við getum nýtt sem veganesti inn í framtíðina.

Nú er til að mynda verið að ræða nýtt húsnæðislánakerfi, danska kerfið. Það er jafnvel verið að ræða að þar með fái starfandi viðskiptabankar aukið hlutverk í útlánum til íbúðakaupa. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er eftirspurn meðal almennings eftir annars konar bankastarfsemi. Ég held að þessi skýrsla geti orðið okkur ágætisveganesti inn í það. Ég held að við séum mörg reiðubúin að hefja slík viðskipti og ég held að við sem erum í stjórnmálum getum í það minnsta farið yfir lagaumhverfið og kannað hvað við getum gert til að hvetja til slíkra viðskiptahátta í framtíðinni.