143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[13:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Já, það er mikil og merk skýrsla sem við ræðum hér í dag og ber að þakka þeim sem hafa unnið að henni. Ég get þó ekki fjallað um hana án þess að víkja að því að það var klukkan tvö í gær sem við fengum aðgang að þessu mikla verki sem er upp á 1.865 síður, held ég, eða eru þær 1.685? Ég man það ekki. Það hlýtur að vera mikið yfirborð sem við förum yfir hér í dag.

Mér finnst þetta svolítið endurspegla það sem pirrar, ef ég má nota það orð, mig stundum við störf Alþingis, að svo virðist sem við eigum að bregðast við alls konar hlutum með engum fyrirvara, vera í sviðsljósinu og segja eitthvað. Og þarna kemur skýrsla og þá segjum við annaðhvort: Hún er góð, eða: Hún er vond. Og við segjum: Það er náttúrlega alveg ljóst að þessir menn sem ráku þessa sparisjóði voru alveg ómögulegir.

Þetta er allt mjög spennandi. Mér finnst störf þingsins einkennast of mikið af því að menn vilja vera í sviðsljósinu, bregðast við fréttamönnum. Það má ekki segja það en fréttamenn hafa ekki áhuga á neinu nema upphrópunum. Þeir hafa aldrei áhuga á efnislegri umræðu, finnst mér. Þegar maður segir svona ýkir maður kannski pínulítið en það er sama. Ég get ekki farið inn í þessa umræðu sem náttúrlega styttist út af þessu án þess að geta þessa.

Ég held hins vegar ekki að þessi skýrsla sé ónýt fyrir bragðið eða að hún komi ekki til með að gagnast. Það veltur þó á okkur. Löggjafarstörf eru langhlaup en ekki spretthlaup, sem betur fer, eða eiga að vera það. Það er bara þegar við erum í einhverjum neyðaraðstæðum sem löggjafarstörf geta verið spretthlaup. Þau eru langhlaup og það er undir okkur komið hvort þessi skýrsla kemur til með að verða að því gagni sem við hljótum að vilja að hún verði. Við erum búin að eyða í hana rúmum 600 milljónum þannig að það er í okkar höndum.

Þetta er þriðja skýrslan sem við fáum. Hún vekur ekki sömu athygli og hinar gerðu. Fyrsta skýrslan var martröð að lesa þegar við sáum skrifað á blað hvernig málum hafði verið háttað hér og stjórnað. Næsta skýrsla var um Íbúðalánasjóð og hún var svolítið í fyrirsögnum. Það pirraði marga mjög mikið af því að þá mátti ekki skrifa í fyrirsögnum.

Við horfðum á sjónvarpsþátt í gær þar sem spyrillinn sagði ítrekað: En er ekki eitthvað fréttnæmt? vegna þess að þessi skýrsla er ekki skrifuð í fyrirsögnum.

Samt sem áður kemur fram í þessari skýrslu að þjóðfélagið hér einkenndist af áhættusækni, lélegri stjórnun, lélegu eftirliti og græðgi. Þetta er það sem varð hér að leiðarljósi, því miður. Það vekur enga athygli núna vegna þess að þetta hefur komið fram í fyrri skýrslum.

Við horfum á það sem kemur út úr því og við þurfum að skoða lagasetninguna en við þurfum líka að líta til þess sem við erum að gera í dag. Segir þessi skýrsla okkur eitthvað sem við horfum fram hjá í dag? Er ekki verið að leggja fram frumvarp um að það megi fjórfalda þá upphæð sem má setja í bónusa í fjármálafyrirtækjunum? Og við erum með þessa skýrslu hér. Það er sagt að það séu í rauninni höft á fjármálafyrirtækjum vegna þess að öll önnur fyrirtæki eru ekki með reglur um hvað þau megi gefa mikla bónusa. Bónusar í fjármálafyrirtækjum eru til þess gerðir, held ég, og það sýnir sig í þessari skýrslu, að starfsmenn bankanna taki meiri áhættu en þeir hefðu ella gert. Það er ýmislegt sem við getum rifjað upp fyrir okkur um það sem er að gerast í dag.

Hér hefur verið farið yfir það hvernig sparisjóðshugsjónin var. Hún er vissulega falleg og góð en árið 1993 breyttist lagaumhverfið og sparisjóðirnir bankavæddust, ef ég mætti segja sem svo. Og þá komum við að spurningunni: Af hverju gerist þetta? Jú, af því að við tökum upp hina evrópsku löggjöf. Þá vilja einhverjir kenna Evrópu um allt. En það er ekki alveg þannig. Það er líka það sem oft hefur verið bent á áður, að við tökum gjarnan þessar evrópsku reglur og þýðum þær bara, við skoðum þær ekki. Við virðumst ekki átta okkur á því að þær eru oft og tíðum rammi. Það er hægt að haga sér einhvern veginn innan þessa ramma og það er hægt að líta til þess umhverfis sem við erum í og smíða reglurnar eftir því sem okkur hentar. Það gerðum við ekki og því fór sem fór.

Síðan er líka hið íslenska einkenni, sem er kannski ekki bara íslenskt en er að minnsta kosti hér, að ef það er ekki bannað má maður gera það. Það má allt sem ekki er bannað, t.d. þetta með að selja stofnbréf á yfirverði. Það er notað af því að það er ekki beinlínis bannað og Fjármálaeftirlitið gerir ekki athugasemdir við það.

Hvað gerist? Menn segja gjarnan: Já, allir hafa tapað öllu sínu stofnfé og eitthvað svoleiðis. Það var hins vegar ekki aldeilis svoleiðis vegna þess að einhverjir græddu. Árin 2005–2007 var stofnfé sparisjóðanna aukið um 57 milljarða kr. Stofnfjáreigendur fengu þó meira en helming þeirrar fjárhæðar, 29 milljarða kr., til baka í formi arðs ári eftir að þeir lögðu fram stofnféð. Þegar sparisjóðirnir féllu að lokum og stofnfé hafði tapast var þarna eitthvert ágætisfólk sem gat makað krókinn, ef ég má nota það leiða orðtak.

Við þurfum að horfa á lögin og reglurnar sem við setjum vegna þess að það er mannlegt eðli að reyna að græða og þess vegna þarf að fylgjast með því.

Þegar við fjölluðum um Íbúðalánasjóðsskýrsluna um daginn gerðu margir lítið úr öllu því sem þar var sagt. Það kemur hins vegar fram í þessari skýrslu að einmitt vegna þess að Íbúðalánasjóður lét mikið fé til sparisjóðanna gerðist tvennt, þenslan á fasteignamarkaði jókst og eignasafnið hækkaði. Vegna þess hvernig þetta var fært í bækur sparisjóðanna hækkaði þetta líka eignasafn sparisjóðanna og þeir gátu lánað meira. Það er aldeilis ekki þannig að það sem fram fór í Íbúðalánasjóði og hvernig fé var ráðstafað þar hafi ekki haft mikil áhrif á efnahagslífið. Nú er það endurtekið í þessari skýrslu.

Framtíðin skiptir hins vegar mestu máli og það þarf að taka til. Við þurfum að skoða regluverkið í kringum sparisjóðina. Ég vildi að það væri hægt að búa til einhverjar slíkar fjármálastofnanir en við þurfum verulega að huga að því. Menn horfa til þýsku sparisjóðanna og segja: Þeir eru blómlegir og þar er allt gott. Minnsti þýski sparisjóðurinn er eins og allir íslenskir sparisjóðir til samans. Við verðum líka að fara að átta okkur á því í regluverkinu okkar að við erum lítil og smá. Við verðum að sníða okkur stakk eftir þeim vexti — eða eftir smæð á ég kannski að segja.